Innlent

Umdeild slysahætta

Borið hefur á óánægju meðal ferðamanna við Bjarnarflag við Mývatn í sumar, þar sem bannað hefur verið að baða sig í lóninu. Landsvirkjun ber ábyrgð á lóninu og í sumar settu starfsmenn fyrirtækisins upp skilti þar sem segir að böðun sé stranglega bönnuð vegna slysahættu þar sem heitir hverir séu undir yfirborði vatnsins. Telja staðkunnugir að þarna hafi ferðamenn lengi iðkað böð slysalaust og Landsvirkjun hafi ekki sett sig upp á móti því fyrr en nú. Það kunni hugsanlega að tengjast þátttöku Landsvirkjunar í nýju félagi sem rekur baðaðstöðu í lóninu og tekur gjald af gestum. Fulltrúar Landsvirkjunar segja að skilti með aðvörunum hafi staðið þarna í mörg ár. Hins vegar hafi Landsvirkjun staðið fyrir átaki í sumar þar sem hættuleg svæði sem fyrirtækið ber ábyrgð á voru merkt betur en áður. Ingvar Hafsteinsson, stöðvarstjóri í Kröfluvirkjun segir að í Bjarnarflagi sé mikil slysahætta og þar hafi fyrir nokkrum árum næstum orðið slys á barni vegna hita. Ingvar segir að nýja skiltið eigi að skerpa á þessu og það tengist baðfélaginu á engan hátt. Landsvirkjun beri ábyrgð á lóninu og vilji beina fólki frá því.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×