Innlent

Verkfallið vofir yfir

Fátt virðist geta komið í veg fyrir að kennarar fjörutíu og fimm þúsund grunnskólanema fari í verkfall á morgun. Ríkissáttasemjari segir það ráðast á næstu klukkustundum hvort deilendur nái saman, en enn sé langt á milli þeirra. Kennarar og fulltrúar sveitarfélaganna hafa fundað saman og í sitthvoru lagi, og kastað á milli sín hugmyndum og tillögum að lausnum. Ekkert eitt afmarkað mál hefur verið rætt í dag eða í gær, heldur samningarnir sem heild, og enn er langt á milli deilenda. Ásmundur Stefánsson, Ríkissáttasemjari segir að unnið sé í þessu að alefli og vonandi verði komin skýr svör áður en menn fari í háttinn. Framhaldið ráðist af vinnunni sem fram fari á næstu klukustundum Verði af verkfalli óttast menn að það verði langvinnt, og það hefði mjög víðtæk áhrif á þjóðarbúskapinn og samfélagið allt. Nokkrir nemendur í Hvaleyrarskóla í Hafnarfirði voru farnir að safnast saman klukkan sex við Karphúsið til að þrýsta á um lausn kennaradeilunnar. Þeir ætluðu einnig að afhenda deilendum undirskriftalista nemenda í unglingadeildum sem hvetja til sátta. Hjalti Kristinn Unnarsson, nemi í 10. bekk segir að nemendum sé annt um sýna framtíð, enda séu margir á leið í samræmdu prófin og því að undirbúa sig fyrir nám í framhaldsskólum. Hann segisat vonast til að samhugur nemenda skili sér og muni hafa áhrif á deiluaðila.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×