Innlent

Kommúnistar yngja upp

Yngri kynslóð hefur nú tekið við völdum í kínverska kommúnistaflokknum, en Jiang Zemin lét af síðasta embættinu sem hann gegndi í morgun. Lítið er vitað um eftirmanninn Hu Jintao, sem er nú valdamesti maður Kína. Jiang Zemin hætti í morgun sem yfirmaður kínverska hersins, en það er síðasta staðan sem hann gegndi innan kínverska kommúnistaflokksins. Á síðasta ári hætti hann sem forseti og sem flokksformaður ári fyrr. Ekki hafði verið búist við því að Jiang myndi hverfa af sjónarsviðinu strax, heldur var gert ráð fyrir því að hann héldi í síðasta embættið til 2007. Fréttaskýrendur segja að vaxandi þrýstingur hafi verið á Jiang að fylgja fordæmi Dengs Sjaopíngs og draga sig í hlé innan tveggja ára frá því að hann hætti sem flokksformaður. Að auki er heilsufar Jiangs sagt bágt, en hann er 78 ára gamall. Einnig hefur gætt nokkurar óvildar á milli hans og eftirmannsins Hus Jintaos, og er það einnig talið hafa skipt nokkru. Hu, sem tilheyrir yngri kynslóð flokksins, er aðeins 61 árs, tók við af Jiang sem yfirmaður hersins. Allsherjarfundur miðstjórnar kommúnistaflokksins stendur nú yfir í Peking, og þar var gengið formlega frá því að Hu yrði æðsti og valdamesti maður flokksins. Hann er því formaður flokksins, forseti landsins og yfirmaður hersins. Lítið er vitað um Hú, þó að hann hafi róið að því öllum árum í tíu ár að komast á tind stjórnmálanna í Kína. Vitað er að hann er dansáhugamaður mikill og hefur gaman að borðtennis. Hann er einnig sagður hafa ljósmyndaminni. Sumir stjórnmálaskýrendur segja að hann sé harðlínumaður, aðrir telja hann sýna hófsama takta, til að mynda er sagt að hann íhugi að auka fjölmiðlafrelsi, gera endurbætur á réttarkerfinu og taka á spillingu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×