Innlent

Íslenska óperan gefur blóð

Blóðsúthellingar eru áberandi í óperutryllinum um Sweeney Todd sem Íslenska óperan frumsýnir í byrjun október. Söngvarar óperunnar vildu ekki láta sitt gæðablóð fara til spillis á sýningunum og heimsóttu Blóðbankann í dag. Það var létt yfir starfsfólki Íslensku óperunnar þegar það fjölmennti í Blóðbankann til að gefa blóð. Tilefni heimsóknarinnar er frumsýning á Sweeney Todd eftir Stephen Sondheim í næsta mánuði en þetta er í fyrsta skipti sem óperan er sett upp hér á landi. Sögusviðið er London á tímum iðnbyltingarinnar en Sweeney Todd hefur snúið til borgarinnar til að hefna harma. Hann tekur upp fyrri iðju sem bartskeri en nú sker hann fleira en hár og skegg, og eiga ekki allir afturkvæmt úr stólnum hjá honum. En í stað þess að úthella blóði vildu söngvarar í verkinu gefa blóð og sinna þannig samfélagslegri skyldu sinni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×