Innlent

Leigja fermetrann á þúsund krónur

Á Reyðarfirði hefur leiguverð á íbúðum hækkað eftir að framkvæmdir við álverið og gangagerð hófust. Heimamenn ræða um að verktakafyrirtækið Bechtel, sem reisir álver Alcoa, óski eftir húsnæði til leigu á 1.000 til 1.100 krónur á fermetra. Ásmundur Ásmundsson fasteignamiðlari segir fyrirtækið Bechtel hafa verið í húsnæðisleit, viljað taka tíu hús á leigu en endað með þrjú. Fyrirtækið hafi séð að sér eftir að verðhugmyndin lak út. "Fólk fagnaði því að geta leigt á þessu verði því þetta eru tölur sem ekki hafa sést hér," segir Ásmundur. Leiguverð hafi hingað til verið 50 til 80 þúsund eftir stærð húsnæðisins. Ásmundur staðfestir hins vegar að húsnæði hafi verið leigð á 900 krónur fermetrann. "Einnig eru dæmi um fólk sem leigði einbýlishúsið sitt og keypti annað og fólk sem leigði húsið sitt og þrengdi að sér og flutti til foreldra upp á Hérað," segir Ásmundur. Björgvin L. Sigurjónsson sjómaður frá Reyðarfirði segir freistandi að leigja húsnæðið sitt en verðið hljóti að miðast við stærð húsnæðisins. "Ég efast um að þeir bjóði 1.100 krónur fyrir 250 fermetra húsnæði," segir Björgvin. Hann segir ævintýralegt að fylgast með þróuninnni á staðnum. Alls staðar sé verið að byggja: "Hér hefur ekkert verið að gerast í hundrað ár og nú er allt orðið vitlaust."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×