Innlent

Togbátur fékk trollið í skrúfuna

Björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Hannes Þ. Hafstein frá Sandgerði, var með 230 tonna togbát í togi um 6 sjómílur vestan við Sandgerði rétt fyrir klukkan 10 í morgun. Togbáturinn fékk trollið í skrúfuna í nótt þegar hann var staddur sextán sjómílur vestan við Sandgerði að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Landsbjörg. Klukkan fjögur í nótt óskaði hann aðstoðar við að skera úr skrúfunni og fór björgunarskipið með tvo kafara á vettvang. Þegar komið var út til togbátsins var ákveðið að draga hann nær landi til að komast á sléttari sjó til að skera úr og gera með því aðstæður fyrir kafarana betri. Reiknuðu björgunarskipsmenn með að þeir gætu byrjað að skera út upp úr klukkan 10. Skurðurinn mun væntanlega taka talsverðan tíma segir í tilkynningu Landsbjargar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×