Innlent

Íslendingar stjórni veiðunum

MYND/E.Ól
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, stærsta sjávarútvegsfyrirtækis landsins, segir algert skilyrði fyrir inngöngu í Evrópusambandið að Íslendingar stjórni algerlega veiðum á eigin fiskimiðum. Hann segist ekki sjá þess nein merki að Evrópusambandið verði við þeirri kröfu og hann tekur undir gagnrýni Halldórs Ásgrímssonar á Evrópusambandið á sjávarútvegsráðstefnu sem haldin var á Akureyri í fyrradag. Þorsteinn segist sjá fyrir sér að forræðið yfir stjórnun fiskveiða fari frá Íslendingum ef þeir ganga í ESB og því komi innganga ekki til greina á þessu stigi. Hann segir fiskveiðistjórn samdandsins eiginlega tvískipta. Annars vegar sé um að ræða stjórnun uppsjávar- og strandveiða þar sem hvatt hefur verið til að menn stækki flotann, aðallega í síðarnefnda flokknum, þótt hann væri of stór fyrir. Þorsteinn segir þetta hafa orsakað eilíft rifrildi á milli landanna. Hins vegar sé um að ræða veiðar utan lögsögu ESB, sem Samherji hefur meðal annarra tekið þátt í, og þar hefur sambandið stjórnað veiðunum ágætlega að sögn Þorsteins. Aðspurður hvað þurfi að breytast svo ásættanlegt sé fyrir Íslendinga að setjast að samningaborði með hugsanlega aðild í huga segir Þorsteinn að Íslendingar verði hreinlega að hafa stjórn á sjávarútveginum í landinu vegna mikilvægis hans fyrir þjóðina. Hann sér ekki fyrir sér að afstaða ESB muni breytast í þeim efnum.  Hægt er að hlusta á viðtal við Þorstein Má Baldvinsson úr hádegisfréttum Bylgjunnar með því að smella á hlekkinn hér að neðan.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×