Innlent

Greinargerð ráðherra tilbúin

Félagsmálaráðherra sendi nú rétt fyrir fréttir Helgu Jónsdóttur borgarritara greinargerð vegna ráðningar í embætti ráðuneytisstjóra félagsmálaráðuneytisins. Í greinargerðinni er ekki fjallað um hvers vegna Helga fékk ekki starfið, heldur hvers vegna Ragnhildur Arnljótsdóttir var ráðin. Helga Jónsdóttir krafðist þess af Árna Magnússyni félagsmálaráðherra að hann rökstyddi ráðningu í embætti ráðuneytisstjóra. Þrjú voru talin hæfust: Helga, Ragnhildur Arnljótsdóttir og Hermann Sæmundsson, settur ráðuneytisstjóri. Samkvæmt heimildum Stöðvar 2 er í greinargerðinni, sem væntanlega er nú á leið til Helgu eða nýkomin í hennar hendur, ekki fjallað um hvers vegna Helgu var hafnað heldur miklu frekar hvers vegna Ragnhildur var ráðin. Margt er þar nefnt eftir því sem Stöð 2 kemst næst, til dæmis það að staðan var veitt frá síðustu mánaðamótum og gat Ragnhildur byrjað þá, en Helga ekki fyrr en tveimur mánuðum síðar, í byrjun nóvember. Þegar valið var á milli þeirra þriggja sem talin voru hæfust var litið til fagmenntunar og viðbótarmenntunar á stjórnunarsviði, reynslu í starfsstjórnun sem nýttist ráðuneytisstjóra, faglegra hæfileika, hæfni í mannlegum samskipum, frammistöðu í starfsviðtölum og meðmæla. Samkvæmt heimildum Stöðvar 2 þótti Ragnhildur koma best út í þessum þáttum. Þá hafi starf Ragnhildar á vegum Evrópusambandsins í Brussel undanfarin tvö ár verið nánast klæðskerasniðin að mati ráðherra fyrir ráðuneytisstjóra í félagsmálaráðuneytinu. Í Brussel sinnti hún meðal annars húsnæðismálum, vinnumarkaðsmálum, sveitarstjórnarmálum, málefnum fatlaðra og barnaverndarmálum. Ekki náðist í Árna Magnússon félagsmálaráðherra eða Helgu Jónsdóttur borgarritara vegna þessa máls fyrir fréttir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×