Innlent

Konungur furðar sig á uppganginum

"Mesti munurinn á fyrstu heimsókn minni hingað til lands og þessari er hvað uppgangurinn hefur verið mikill á Íslandi í millitíðinni," sagði Karl Gústaf Svíakonungur á blaðamannafundi sem konungshjónin héldu síðdegis í gær. Þá var annasamur dagur á enda hjá hjónunum en í dag sækja þau Akureyringa heim. Aðspurður sagðist konungur furða sig á þeim mikla vexti sem orðið hefði á þeim tæplega 30 árum sem liðin eru síðan hann kom fyrst hingað til lands. "Hér hefur mikið breyst frá þeim tíma og miklar framfarir orðið og það er afar ánægjulegt að verða vitni að slíku og vona ég að Íslendingar haldi áfram á sömu braut. Þessir tveir dagar hafa verið afar fróðlegir og mikið að sjá og gera en mér þótti afar fróðlegt að sitja ráðstefnuna um loftslagsbreytingarnar í Háskólanum." Silvía drottning sagði för sína á Barnaspítala Hringsins og í Barnahúsið verulega fræðandi en hún óskaði sérstaklega eftir því að kynna sér starfsemi Barnahússins áður en hingað kom. Karl Gústaf vildi ekki tjá sig mikið um hvalveiðar Íslendinga en Svíar eru í hópi þeirra þjóða sem hvað mest hafa mótmælt áframhaldandi hvalveiðum. Hann sagðist hvorki hafa rætt það við forsetann né aðra embættismenn hér á landi. Talsvert fát kom á konunginn þegar hann var spurður út í þær sögusagnir í Svíþjóð að unnusti Victoríu krónprinsessu hefði beðið hennar en sá er víst í litlu uppáhaldi hjá Karli. Eftir vandræðalega þögn svaraði Silvía drottning því til að eingöngu væru um sögusagnir að ræða og ekkert annað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×