Innlent

Sjómenn sér á báti

Sjómenn eru nær eina starfsstétt landsins á almennum vinnumarkaði sem fer í verkföll. Hjá þeim hafa aðstæður um sumt verið líkari því sem gerist hjá hinu opinbera, segir Ari Edwald, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. "Það stafar af því að opinber afskipti af sjávarútvegi hafa verið meiri heldur en tíðkast annars staðar á almennum markaði. Þeirra umhverfi er því líkara því sem er hjá ríkisstarfsmönnum. Sjómenn hafa bæði treyst á að stjórnvöld kæmu inn í málin vegna mikilvægi veiðanna og hafa ekki óttast að störf þeirra hyrfu og innfluttar afurðir leysti þau af hólmi eins og víða er í framleiðslu hérlendis," segir Ari. Sævar Gunnarsson, formaður Sjómannasambands Íslands, segir rangt að engin hætta steðji að stétt sjómanna: "Það er alveg ljóst að ef útvegsmönnum tekst ætlunarverk sitt að rýra svo kjör sjómanna að þeir fái ekki menn á skipin; annað hvort út af vinnuálagi eða lágu kaupi, þá hljóta þeir að ætla að fá aðra til að vinna störfin." Ari segir forystumenn sjómanna oft hafa haldið fram að útvegsmenn treysti á inngrip stjórnvalda. "Það er að mínu mati alrangt. Má nefna því til stuðnings að lög hafa beinlínis verið sett á vinnuveitendurna en ekki á sjómennina," segir Ari og bendir á að sjómenn hafi samþykkt miðlunartillögu ríkisins árið 1998 en útvegsmenn fellt. Hún hafi orðið að lögum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×