Innlent

Telur gas valda riðusjúkdómum

Nýjar kenningar um orsakir riðuveiki eru komnar fram í kjölfar sauðfjárriðu sem upp kom á bænum Árgerði í Skagafirði í sumar. Guðbrandur Jónsson, sem vinnur að rannsóknum tengdum hagnýtingu lífræns úrgangs við metangasframleiðslu, telur riðu orsakast af gasmengun frá dýraúrgangi. Guðbrandur segir mælingar hafa leitt í ljós eiturgas í fjárhúsinu í Árgerði. Í fjárhúsinu hafði um skeið runnið vatn í flórinn en "biogasgerjun" segir hann eiga sér stað þegar vatn liggur með mykju í einn til tvo mánuði. Kannanir á áhættuþáttum gasvinnslu, segir Guðbrandur, hafa leitt í ljós mjög hættulegar gastegundir á borð við brennisteinsvetni, köfnunarefniskoltvísýring og kolsýring. "Í uppgufun frá þessu er svo ammoníumgas, kolsýringur og metan sem ryður í burt súrefni þannig að kindurnar verða fyrir súrefnisskorti." segir hann. Yfirdýralæknir telur kenningar Guðbrands ekki standast, en að sögn Víðis Kristjánssonar, deildarstjóra á efna- og hollustuháttadeild Vinnueftirlitsins, stefnir í að gerðar verði rannsóknir á mögulegri gasmengun frá dýraúrgangi til sveita. Hann segir slíkar rannsóknir þó munu verða kostnaðarsamar og ákvörðun um þær verði tekin í stjórn Vinnueftirlitsins. Víðir segir hins vegar möguleg tengsl gasmengunar og riðu í dýrum alveg fyrir utan verksvið Vinnueftirlitsins. "En við höfum haft áhyggjur út af svona mengun á bændabýlum enda eru slík tilfelli vel þekkt."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×