Innlent

Brot á samþykktum Símans

Steingrímur J. Sigfússon alþingismaður segir það brot á samþykktum Símans ef stjórnendur hafi ákveðið að kaupa hlut í Skjá einum og sýningarrétt á enska boltanum án vitundar og vilja hluthafans, sem er ríkið. Hann krefst þess sem hluthafi að boðaður verði hluthafafundur vegna málsins. Steingrímur J. Sigfússon segir að það sé skýrt í samþykktum Landssímans að allar meiriháttar ákvarðanir skuli bera undir hluthafa. Hann telur það ótvírætt að svo beri að gera í þessu tilviki. Steingrímur segir ljóst að þarna sé um grundvallarbreytingu á starfsemi Símans að ræða, ekki síst í ljósi þess að forráðamenn fyrirtækisins hafi gefið þá yfirlýsingu, eftir úrskurð Samkeppnisstofnunar um að aðskilja ætti breiðvarpsstarsfemi fyrirtækisins frá annarri starfsemi, að þeir ætluðu ekki að vera fjölmiðlafyrirtæki. Steingrímur segir þessa aðgerð koma á óvart í ljósi þess að Síminn hafi áður lýst því yfir að hann æltlaði ekki út í fjölmiðalreksstur. Tilgangur þess og markmið er upplýsingaþjónusta og upplýsingatækni og því sé eðlilegt að menn spyrji: hvers vegna þessar æfingar núna? Steingrímur segir þetta vekja upp margar spurningar, bæði út frá samkeppnisforsendum, fjölmiðla- og fjarskiptasviðinu og pólitískum forsendum. „Í hvaða tengslum er þessi gjörningur við fyrirhugaða einkavæðingu fyrirtækisins?“ spyr Steingrímur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×