Innlent

Hundaæði í smygluðum hundi

Á vef Yfirdýralæknis er varað við smygli á hundum frá löndum þar sem vitað er að hundaæði hefur komið upp. 21. ágúst drapst 4 mánaða gömul hvolptík úr hundaæði í Frakklandi. Henni hafði verið smyglað inn í Frakkland í júníbyrjun um Spán frá Agadir í Marokkó. Hvolpurinn sýndi einkenni hundaæðis frá 18. ágúst, en dagana 2. til 21. ágúst komst hann í snertingu við stóran hóp fólks og hunda. Fram kemur að náinn samgangurinn hafi þegar kostað 29 hunda lífið auk þess sem meðhöndla hafi þurft nokkrar manneskjur sem komust í návígi við hvolpinn. Í kjölfar málsins hafa héruðin Bordeaux, Hostens, Léognan, Gradignan, Libourne, Périgueux og Miramont-de-Guyenne í Frakklandi verið skilgreind sem hættusvæði vegna hundaæðis í 3 mánuði. "Þessar ráðstafanir fela ekki í sér neinar takmarkanir á ferðum hunda sem eru löglega bólusettir en óbólusetta hunda má ekki fara með milli svæða, á hundasýningar o.s.frv.," segir á vef yfirdýralæknis og áréttað að hundaæði sé sá dýrasjúkdómur sem allar þjóðir heims reyni að verjast eftir öllum tiltækum leiðum. Hundaæði hefur langan sýkingarferil og getur borist í fólk við bit.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×