Innlent

Sænsku konungshjónin komin

Opinber heimsókn sænsku konungshjónanna og krónprinsessunnar hófst í morgun. Það er ekki hægt að segja að veðrið hafi leikið við gestina þegar þeir lentu á Reykjavíkurflugvelli um klukkan 10 þar sem sendiherra Svía á Íslandi og sendiherra Íslands í Svíþjóð tóku á móti þeim. Eftir stutt stopp á Hótel Holti þar sem gestirnir gista var haldið rakleiðis að Bessastöðum þar sem Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, og Dorrit Moussaieff forsetafrú tóku á móti gestunum. Lúðrasveit lék þjóðsöngva landanna og hópur grunnskólabarna með íslenska og sænska fánann fögnuðu gestunum. Þegar inn var komið var haldin móttaka þar sem voru fulltrúar ríkisstjórnar Íslands og íslenskir embættismenn og fulltrúar Svíþjóðar. Gestirnir stilltu sér síðan upp til myndatöku en hópur fréttamanna og ljósmyndara frá Svíþjóð fylgja konungshjónunum hvert spor. Reyndar var töluvert púsluspil hjá fimmmeningum hvar hver ætti að standa en allt fór þó vel. Eftir hádegið verða konungshjónin viðstödd alþjóðlega loftslagsráðstefnu í Öskju og síðan heimsækir drottningin Barnaspítala Hringsins en velferð barna er henni mjög hugleikin. Síðdegis afhendir konungur síðan forseta Íslands veglega gjöf Svía til Íslendinga, gríðarmikið glerlistasafn sem geymt verður í sérstöku hönnunarsafni. Laust eftir klukkan fjögur taka sænsku konungshjónin á móti löndum sínum í Norræna húsinu. Forseti Íslands býður gestunum síðan til hátíðarkvöldverðar í Perlunni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×