Innlent

Áhersla á umræðu um kynhneigð

Fordómar eru helsta fyrirstaða þess að samkynhneigðir njóti sömu stöðu og gagnkynhneigðir í þjóðfélaginu að mati nefndar forsætisráðherra um réttarstöðu samkynhneigðs fólks. Í ljósi þessarar megin niðurstöðu leggur nefndin til að áhersla verði lögð á umræðu um kynhneigð í næstu endurskoðun á aðalnámskrám og þar kveðið á um fræðslu um samkynhneigð og stuðning við samkynhneigða í skóla. Brýnt sé að fjallað verði fordómalaust um samkynhneigð í tengslum við önnur blæbrigði tilfinningalífsins. Fræðslan verði ekki einskorðuð við kynfræðslu heldur fari hún líka fram á vettvangi samfélagsgreina. Lagt er til að námsefnisgerðarsjóður verji árlega ákveðnum fjármunum til gerðar fræðsluefnis um málið og að um samkynhneigð verði fjallað í grunnmenntun, til dæmis kennara, hjúkrunarfólks, lækna, lögfræðinga, guðfræðinga, sálfræðinga, lögreglufólks og fangavarða. Einnig að starfssemi Samtakanna 78 verði markaður tekjustofn af opinberu fé til að sinna fræðslu, fjölmiðlun og ráðgjöf. Loks leggur nefndin til að ráðuneyti menntamála, félagsmála og heilbrigðismála taki höndum saman við félagsvísindadeild Háskóla Íslands um víðtæka vísindarannsókn á lífi og líðan samkynhneigðra á Íslandi til að komast að því hvar skórinn kreppir og bæta þar úr.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×