Innlent

Gölluð bygging og ónotuð í áratug

Tugmilljóna króna viðbygging við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri hefur að mestu staðið ónotuð í áratug. Vegna hönnunargalla er hún nánast ónothæf til þess sem hún var upphaflega ætluð. Heilbrigðisráðherra segist ekki vilja draga neinn til ábyrgðar, en segir vandamálið brátt úr sögunni. Í nýlegri stjórnsýsluendurskoðun Ríkisendurskoðunar segir frá makalausu klúðri í húsnæðismálum Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri síðastliðinn áratug. Árið 1994 var tekin fyrsta skóflustungan að viðbyggingu við sjúkrahúsið, sem vegna fjárskorts var þó ekki tekin í notkun fyrr en árið 2000 og þá aðeins ein hæð af fjórum. Hinar þrjár hæðirnar hafa enn ekki verið teknar í notkun og vegna hönnunargalla eru þær ónothæfar til þess sem þær voru ætlaðar. Í skýrslunni, þar sem talað er um tugmilljóna króna sóun á almannafé, segir að þrátt fyrir að enn ein nefndin hafi verið skipuð liggi ekkert fyrir um framhaldið. Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra, segir að hann hafi skipað nefnd árið 2002 til að koma með tillögur um endurhönnun á þeim þremur hæðum sem eru óinnréttaðar. Honum hafi fundist að við svo búið mætti ekki standa. Hann segir auðvitað mjög óæskilegt að byggja og láta húsnæði standa ónotað. Hann vill þó ekki draga neinn til ábyrgðar í málinu. Þá gat hann ekki sagt til um hve miklum peningum hefði verið eytt af almannafé. Hann vill ekki dæma um hvort heilbrigðisráðuneytið beri ábyrgð í málinu, aðalatriðið sé að það sé komið á fullt skrið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×