Innlent

Latibær vinsælastur

Þættirnir um Latabæ reyndust vinsælasta barnaefnið í bandarísku sjónvarpi fyrstu vikuna sem þeir voru sýndir. Tíu milljónir Bandaríkjamanna sáu þættina. Þessa dagana er verið að framleiða síðustu átján þættina af þeim fjörutíu sem búið er að semja við bandarísku sjónvarpsstöðina Nickelodeon. Þar er í aðalhlutverki sjálfur íþróttaálfurinn Magnús Scheving, höfundur Latabæjar og prímusmótor verkefnisins. Hann er eðlilega kampakátur með viðtökurnar vestanhafs á stærsta sjónvarpsmarkaði heims. Hann segir að þau hafi stefnt að tíu efstu sætunum og því gleðiefni að lenda í því fyrsta. Latibær sé því vinsælasta barnaefni í Bandaríkjunum. Hvert þetta getur leitt er erfitt að spá. Verkefnið hefur þegar skilað mörghundruð milljónum króna inn í íslenskt efnahagslíf og líklegt að gjaldeyrisframleiðslan verði talin í milljörðum króna áður en langt um líður. Magnús Scheving telur að Latibær gæti orðið eitt þekktasta "barnakonsept" í heiminum innan fimm ára. Hann segir að þetta geti þýtt túrisma, framleiðslu á vörum, fleiri þætti og jafnvel bíómyndaframleiðslu en hann segir Paramount Pictures hafa óskað eftir því.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×