Innlent

Telja kostnaðinn landsbyggðarskatt

Reykjavíkurborg þarf ekki að borga löggæslukostnað vegna Menningarnætur, en aukakostnaður lögreglunnar var tæplega ein milljón króna. Þeir sem halda Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum þurfa hins vegar að borga allan löggæslukostnað sem er yfir þrjár milljónir króna. Eyjamenn kalla þetta landsbyggðarskatt og segja skemmtanir á landsbyggðinni ekki sitja við sama borð og hátíðarhöld í höfuðborginni. Lögreglan í Reykjavík hefur nú tekið saman kostnað sem hlaust af aukalöggæslu vegna Menningarnætur Reykjavíkur um síðustu helgi. Ingimundur Einarsson, varalögreglustjóri, segir að auk hinna 20 lögregluþjóna sem voru á helgarvakt hafi 35 lögregluþjónar verið kallaðir á aukavakt. Alls hafi þeir skilað rúmum 300 klukkustundum í aukavinnu og að aukakostnaður sé því um 900 þúsund krónur. Þennan kostnað þarf lögreglan sjálf að bera, þar sem Reykjavíkurborg þarf ekki að sækja um skemmtanaleyfi fyrir Menningarnóttinni, þar sem talið er að hundrað þúsund manns hafi verið. Sama máli gegnir um fótboltalandsleikinn við Ítali í síðustu viku, þar sem 20 þúsund manns voru samankomnir. Hann telst ekki skemmtun og því þurfa skipuleggjendur ekki að greiða fyrir löggæslukostnað. Öðru máli gegnir um margar aðrar skipulagðar skemmtanir. Til að mynda þarf að sækja um skemmtanaleyfi fyrir Þjóðhátíðina í Eyjum og þar þurfa skipuleggjendur að greiða löggæslukostnað úr eigin vasa. Hann var þrjár milljónir í fyrra og verður jafnvel hærri í ár. Eyjamenn eru ekki hressir. Páll Scheving, framkvæmdastjóri ÍBV, segir að skipuleggjendur Þjóðhátíðar vilji að dómsmálaráðherra verði einfaldlega að veita Sýslumanni það fé sem þurfi til að gæta Vestmannaeyjarbæ allan ársins hring. Hann segist líta á þennan löggæslukostnað sem landsbyggðarskatt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×