Innlent

Davíð verður utanríkisráðherra

Davíð Oddsson forsætisráðherra gerir ráð fyrir að taka við starfi utanríkisráðherra þegar Halldór Ásgrímsson tekur við sem forsætisráðherra hinn 15. september næstkomandi. Davíð hefur verið fjarverandi frá störfum undanfarnar vikur vegna skurðaðgerða sem hann gekkst undir og segir ekki víst hvenær hann snýr aftur til starfa. "Ég býst við að verða á hálfu gasi eitthvað fram eftir og sé til hvort ég nái fullum kröftum. Geri ég það ekki verð ég að hætta." Davíð segist "leyfa sér þann munað" að hugsa ekki mikið út í hvaða verkefni verða helst á hans könnu þegar hann tekur við utanríkisráðuneytinu, en eitt af hans stærstu verkefnum verður varnarsamstarfið við Bandaríkjamenn. Á morgun mun Bandaríkjaforseti tilkynna um niðurskurð bandaríska heraflans í Evrópu. Davíð segist ekki búast við niðurskurði hér á landi. "Ég átti góð samtöl við Bandaríkjaforseta og hann sagði mér að herþoturnar munu ekki fara án okkar samþykkis. Hann talaði af hreinskilni og milli okkar ríkir mikill trúnaður."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×