Innlent

Kraftmeiri með hverjum degi

"Mér líður ágætlega, þetta er allt að koma," sagði Davíð Oddsson þegar hann kom fram opinberlega í fyrsta skipti síðan hann var lagður inn á sjúkrahús hinn 21. júlí. Davíð segir að læknar telji batahorfur góðar. "Þetta er allt mælt í prósentum og sem betur fer er ég réttu megin í þeim efnum." Hann segir það hafa verið skrýtna breytingu og mikla lífsreynslu að vera fluttur skyndilega á sjúkrahús. "Tveimur dögum eftir að hafa verið störfum hlaðinn komst ég ekki framúr rúminu nema með hjálp tveggja hjúkrunarkvenna. Því gleymi ég ekki að það er hægt að verða öðrum háður um einföldustu hluti." Davíð segir gott að hafa kynnst heilbrigðiskerfinu innan frá. "Starfsemi sjúkrahússins gengur markvisst fyrir sig og fólk í heilbrigðisstétt vinnur erfitt og flókið starf af mikilli samviskusemi og elju." Hann segir ekki víst hvenær hann snúi aftur til starfa, hann þurfi að virða sjúkdóminn og fara eftir því sem læknarnir segi sér. "Ég er kraftlaus en finn máttinn vaxa dag frá degi. Ég hef lesið mikið eftir að ég kom heim, gengið um gólf og gert léttar leikfimiæfingar og þess á milli farið upp í rúm eins og mér er sagt að gera." Davíð tók á móti Göran Persson, forsætisráðherra Svíþjóðar, og eiginkonu hans að heimili sínu. Hann sagði þetta hafa verið ánægjulegan vinafund. "Göran var ánægður með ferðina hingað og fundinn sem hann átti með Halldóri Ásgrímssyni um síðustu helgi. Hann var líka afskaplega heppinn með veður." Á fundi forsætisráðherra Norðurlandanna um síðustu helgi sagði Persson það nauðsynlegt fyrir Norðurlöndin að Ísland og Noregur gangi í Evrópusambandið og að Svíar myndu styðja aðildarumsókn þeirra. "Göran hefur aldrei sagt Íslendingum fyrir verkum í samtölum við mig, enda veit hann að ég myndi henda honum út," segir Davíð. "Þetta er málum blandið því við höfum þekkst lengi og hann þekkir afstöðu okkar til Evrópusambandsins."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×