Innlent

Ormsteiti á Egilsstöðum hafið

Héraðs-, bæjar- og uppskeruhátíðin Ormsteiti 2004 er hafin. Í bítið í morgun hlykkjaðist Lagarfljótsormurinn um götur Egilsstaða í fylgd krakkanna í „Smiðju Ormsins í Fljótinu“. Saman vöktu þau íbúana með hljóðfæraslætti og söng og minntu á Ormsteiti sem stendur yfir næstu tíu daga. Það er margt til gamans gert í Ormsteiti, alls konar skemmtanir og uppákomur, en teitið nær hámarki á bæjarhátíð um næstu helgi. Ormsteiti er nú haldið í tólfta sinn. Markmiðið er að það höfði til sem flestra, skemmti heimamönnum og lokki til sín brottflutta Héraðsbúa, og um leið innlenda og erlenda ferðamenn. Á myndinni dregur Lára Vilbergsdóttir, framkvæmdastjóri Ormsteitis, nýjan Ormsteitisfána að húni í fyrsta sinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×