Innlent

Keyrði inn í búð og lést

Ökumaður jeppabifreiðar fékk aðsvif undir stýri í morgun og lést. Jeppinn fór inn um glugga í versluninni Nóatúni í JL-húsinu við Ánanaust. Maðurinn, sem var á sextugsaldri, kom akandi í suðurátt eftir Ánanaustum þegar hann fékk aðsvif og missti stjórn á jeppanum sem hann ók. Bíllinn fór yfir hringtorgið við Ánanaust, yfir götukant og inn á bílastæði Nóatúns og inn um glugga verslunarinnar. Bifreiðin stöðvaðist á kanti rétt fyrir innan gluggann. Brunahani sem maðurinn klessti á og brotnaði við áreksturinn tók mesta höggið og því fór einungis fremsti hluti bílsins inn í húsið sjálft. Engir viðskiptavinir voru nálægt rúðunni þegar jeppinn ók inn en verslunarstjórinn segir að starfsfólki, sem stóð nálægt rúðunni, hafi verið mjög brugðið en ekki þegið áfallahjálp. Verslun Nóatúns var ekki lokað í kjölfar árekstursins. Sjúkrabíll kom þegar á staðinn og flutti manninn meðvitundarlausan á slysadeild. Þaðan var hann fluttur á hjartadeild og síðdegis staðfesti lögregla að maðurinn væri látinn. Málið er til rannsóknar hjá lögreglu og er ekki hægt að skýra frá nafni mannsins að svo stöddu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×