Innlent

SÁÁ segir ástandið óviðundandi

Heilbrigðisyfirvöld taka engan þátt í kostnaði við meðferð ungra sprautufíkla, sem háðir eru ópíumefnum eins og morfíni og heróíni, og sækja meðferð á göngudeild við Sjúkrahúsið Vog. SÁÁ segir ástandið óviðunandi. Frá árinu 1999 hefur SÁÁ boðið sprautufíklum meðferð á göngudeildinni við Sjúkrahúsið Vog, sem byggir á endurhæfingu og lyfjagjöf. Frá þeim tíma hefur umfang starfseminnar sífellt aukist og nú sækja fleiri en 40 manns slíka meðferð hjá SÁÁ. Fram til þessa hafa stjórnvöld ekki tekið neinn þátt í kostnaðinum, sem nemur rúmum 12 milljónum króna á ári. Þar af er helmingur kostnaður við lyfjakaup, en sumir þurfa að sækja lyf daglega á göngudeildina. Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir á Vogi, segir SÁÁ sjá alfarið um að borga þessi lyf enda séu þau mjög mikilvæg. Hann segir þetta dæmi um það þegar jafnaði og réttlætis sé ekki gætt. Fjöldi rannsókna hefur sýnt fram á að meðferðin sem um ræðir skilar góðum árangri og hún tíðkast í nær öllum Evrópulöndum, Kanada og Bandaríkjunum. Fólkið sem á henni þarf að halda er engan veginn í stakk búið til að greiða lyfin sjálft. Um er að ræða nýjung í áfengis og vímuefnameðferðum og ákvörðun um það hvort stjórnvöld taki þátt í kostnaðinum er alfarið pólitísk.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×