Innlent

Forseti staðfesti lagafrumvarpið

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hefur ákveðið að staðfesta lagafrumvarpið sem fellir úr gildi fjölmiðlalögin sem hann synjaði staðfestingar fyrr í sumar. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Ólafur Ragnar sendi frá sér í dag. Þar segir að í yfirlýsingu forsetans frá því fyrr í sumar hafi verið áréttað að mikilvægt væri að lagasetning um fjölmiðla styddist við víðtæka umræðu í samfélaginu og almenn sátt væri um vinnubrögð og niðurstöður. Sjálfstæðir og öflugir, fjölbreyttir og frjálsir fjölmiðlar væru hornsteinar lýðræðisins. Forseti Íslands segir í yfirlýsingunni að Alþingi hafi nú fellt úr gildi lögin sem ollu hörðum og langvarandi deilum og mynduðu djúpa gjá milli þingvilja og þjóðarvilja. Það sé andi íslenskrar stjórnskipunar að túlka beri stjórnarskrá og lagareglur á þann veg að sem mest sátt takist í samfélaginu. Að lokun segir forsetinn að það sé í anda slíkrar sáttar sem hann hafi ákveðið að staðfesta lagafrumvarpið, sem fellir úr gildi fjölmiðlalögin.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.