Menning

Góður svefn drífur líkamann

Margir telja sér trú um að ekki sé hægt að vakna á morgnana fyrr en búið er að hella í sig einum rótsterkum kaffibolla og enn aðrir rífa sig upp á sykuráti. Það er reyndar ótrúlegt hversu lengi líkaminn og hugurinn geta gengið á litlum svefni og margir sofa aldrei nóg. Áður en Edison fann upp ljósaperuna þá svaf fólk að meðaltali tíu tíma á nóttu sem sérfræðingar hafa nýlega áttað sig á að er kjörinn svefntími. Nú þegar vinnustundir okkar miðast ekki bara við dagsbirtuna þá eigum við það til að vaka mun lengur en ráðlegt er. Margir telja of mikinn svefn tímasóun og ásaka fólk sem sefur mikið um leti. En það er eitt að vera latur og annað að sofa nóg. Margir eru farnir að snúa sér að sjónvarpinu á kvöldin til að hvíla sig eða fara á internetið þegar þeir í raun ættu bara að leggjast í rúmið sitt og sofna. Ekkert kemur í staðinn fyrir góðan nætursvefn og ef þú svíkur líkama þinn um svefn þá minnkar geta þín á öllum sviðum í vökunni bæði andlega og líkamlega. Svefnvana fólk á erfiðara með að einbeita sér, er oftar pirrað og óþolinmótt og á erfiðara með að taka skynsamlegar ákvarðanir. Þegar við sofum þá undirbúum við heilann og líkamann fyrir átök næsta dags. Í svefni framleiðir líkaminn hormón sem laga og styrkja líkamsvefi auk þess sem minni okkar styrkist og sumir halda því fram að sofandi vinnum við úr flóknum tilfinningum. Hversu mikið magn af svefni fólk fær er gríðarlega mikilvægt og einnig gæði svefnsins og sumir liggja í rúminu og sofa slitrótt í átta tíma en hvílast ekki nóg. Fólk hefur misjafna svefnþörf en flestir þurfa sjö til níu tíma á nóttu af góðum svefni til að vera í toppformi.   Nokkur góð ráð til að ná góðum svefni: Farðu alltaf að sofa á sama tíma og vaknaðu á sama tíma Ekki taka áhyggjurnar með þér upp í rúm. Finndu leið til að róa hugann áður en þú sofnar. Ekki fara í líkamsrækt á kvöldin því það örvar líkamann. Stundaðu frekar líkamsrækt reglulega á dagtíma. Ekki reykja sex tímum áður en þú ferð að sofa. Slakaðu á fyrir svefninn með því til dæmis að fara í heitt bað. Forðastu drykki með koffeiní seinnipart dags og á kvöldin. Hafðu dimmt og rólegt í svefnherberginu og búðu þannig um rúmið að þér líði vel í því.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×