Menning

Hefur ekki efni á Atkins

"Það er nú bara það klassíska sem gildir hjá mér - að passa mataræðið og hreyfa sig," segir Þórey Ploder Vigfúsdóttir, nemi í Listdansskólanum. "Ég á ekki bíl og ég geng allt sem ég þarf að fara. Í haust gekk ég alltaf í skólann til dæmis. Mér finnst fínt þegar ég er ekki of þreytt og búin að dansa kannski í þrjá til fimm tíma að taka sér smá göngutúr," segir Þórey. Aðspurð um hvort það sé ekki tímafrekt að ganga á alla staði þá segir Þórey það vera. "Þetta tekur meiri tíma en að keyra en ég vakna þá bara fyrr. Það er svo gott að byrja daginn snemma. Ég þarf náttúrlega að vakna miklu fyrr til að klæða mig í öll fötin sem ég þarf að dúða mig í til að ganga í skólann á veturna. En það er ekkert mál að ganga þegar góðar göngugræjur eru til staðar. Síðan er svo miklu betra að vera í skólanum þegar dagurinn er tekinn snemma því þá er ég miklu betur vakandi og hressari," segir Þórey. Eins og hjá flestum á Íslandi þá reynir Þórey að borða rétt. "Ég reyni að passa mataræðið en peningarnir eru vandræði. Ég gæti til dæmis ekki farið á Atkins kúrinn því þar má ekki borða pasta eða neitt svoleiðis sem er allt frekar ódýrt. Ég fer líka mikið í gufu í sundlaugunum og drekk te til að halda röddinni. Síðan passa ég mig á að vera ekki mikið úti illa klædd þegar kalt er í veðri því þá verð ég strax hás," segir Þórey sem er um þessar mundir að taka þátt í sýningunni Hárið sem sýnd er í gamla Austurbæjarbíói.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×