Innlent

Villtar kanínur rannsakaðar

Kanínur í Öskjuhlíðinni voru tæplega sextíu í fyrrasumar. Þær geta fjölgað sér hratt og gotið þremur til fimm ungum í einu á fimm mánaða tímabili frá mars til september. Meðgöngutími kanína er 28-33 dagar, segir í framvinduskýrslu sem unnin var fyrir Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur í fyrrasumar. Veiki og harðir vetur kunna að hafa hindrað fjölgun kanína hérlendis, segir forstöðumaður stofunnar. Kanínur eru ekki vandamál í borginni en fari þeim fjölgandi gæti þurft að taka í taumana, segir meindýraeyðir Reykjavíkur. Ellý Katrín Guðmundsdóttir, forstöðurmaður Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur, segir að rannsóknum á kanínum verði haldið áfram síðar í sumar. Þær séu á byrjunarstigi. "Hvað varðar náttúruverndina hjá okkur þá teljum við þetta ekki vera vandamál en við erum vakandi fyrir þessu. Þess vegna létum við telja kanínurnar og munum halda áfram að fylgjast með þeim því við vitum að þetta hefur verið vandamál erlendis." Hún bendir á að einnig hafi sést til kanína í Elliðarárdalnum. Ellý Katrín segir það hafa komið á óvart hversu fáar kanínurnar hafi í verið en þónokkrar kanínur hafi fundist dauðar í fyrravetur. "Það virtist því hafa komið upp pest og því verður forvitnilegt að kanna stöðuna í ár." Guðmundur Björnsson, meindýraeiðir Reykjavíkurborgar, segir kanínur lítið vandamál á höfuðborgarsvæðinu. "Ekki í dag en ef menn hugsa fram í tímann þá veit ég að það er hugur í mönnum að taka á þessu máli." Nokkrar kvartanir hafi borist og þá helst þar sem þær bíta blómin. Í skýrslu Umhverfis- og heilbrigðisstofnunar segir að kanínur sæki helst í túnfífil, smára, gras, hundasúrur og lúpingu en þær sætti sig ekki við brennisóley og blóðberg.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×