Innlent

Mikill meirihluti á móti lögunum

Meirihluti þjóðarinnar hyggst greiða atkvæði gegn fjölmiðlalögum ríkisstjórnarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu sem ráðgert er að verði í fyrri hluta ágústmánaðar. Þetta kemur fram í skoðanakönnun sem Fréttablaðið gerði um síðustu helgi. Fjölmiðlalögin voru samþykkt á Alþingi 24. maí en í síðustu viku synjaði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, þeim staðfestingar. Lögin eru samt sem áður í gildi og verða í gildi þar til þjóðartkvæðagreiðslan fer fram. Hafni þjóðin þeim í ágúst munu þau falla úr gildi en verði þau samþykkt munu þau gilda áfram. Samkvæmt könnuninni ætla um 71 prósent þeirra sem tóku afstöðu að greiða atkvæði gegn lögunum en 29 prósent með þeim. Alls tóku 73 prósent fólks afstöðu í könnuninni. Af þeim sem ekki tóku afstöðu segjast 23 prósent vera óákveðin eða neita að svara og um fjögur prósent segjast ekki ætla að kjósa. Fleiri konur en karlar segjast ætla að greiða atkvæði gegn fjölmiðlalögunum en ekki er marktækur munur á afstöðu fólks eftir búsetu. Fréttablaðið hefur þrisvar áður spurt fólk um málið. Í lok apríl voru ríflega 77 prósent þeirra sem tóku afstöðu andvíg fjölmiðlafrumvarpinu. Eftir þá könnun gerði ríkisstjórnin tvisvar breytingar á frumvarpinu. Eftir fyrstu breytinguna sýndi skoðanakönnun blaðsins að tæplega 83 prósent væru á móti frumvarpinu. Samkvæmt skoðanakönnun blaðsins, sem gerð var fáeinum dögum áður en Alþingi samþykkti lögin, var tæplega 81 prósent á móti frumvarpinu. Könnunin var gerð síðastliðna helgi. Hringt var í 800 manns og var skiptingin jöfn milli kynja og hlutfallslega milli kjördæma. Spurt var: Ef þjóðaratkvæðagreiðsla um fjölmiðlalögin færi fram nú; myndir þú greiða atkvæði með lögunum eða á móti þeim?


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×