Innlent

Endurskoða aflareglu í þorski

Hafrannsóknastofnunin telur afar brýnt að endurskoða hið fyrsta þá aflareglu sem notuð er vegna þorskveiða hérlendis, þar sem reynslan sýni að afli undanfarinna ára hafi ekki verið í samræmi við markaða nýtingarstefnu íslenskra stjórnvalda. Kemur þetta fram í nýrri skýrslu Hafrannsóknastofnunar um nytjastofna sjávar og er vitnað þar í skýrslu nefndar sem sjávarútvegsráðherra setti á laggirnar árið 2001 til að meta reynslu af setningu aflareglu á þorskveiðar. Nefndin kemst að þeirri niðurstöðu í ljósi reynslunnar að 22 prósenta veiðihlutfall sé vænlegra til árangurs en það 25 prósenta hlutfall sem hefur verið notað undanfarin ár. Jafnframt sé brýnt að framfylgja reglunni með markvissari hætti en verið hefur og jafnvel þörf á frekari stjórnun en notast hefur verið við frá upphafi. Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra segist ekki hafa kynnt sér efni skýrslu nefndarinnar en hún skilaði skýrslu sinni í apríl síðastliðnum. "Ég hef ekki kynnt mér rækilega efni hennar en það er ráðgert að kynna helstu tillögur þessarar nefndar á komandi vikum. Þetta er viðamikið og það eru fleiri mál sem tengjast þessu þannig að við gefum okkur meiri tíma vegna þess." Svonefnd aflaregla í þorski var sett af stjórnvöldum árið 1995. Hún kveður á um að einungis sé heimilt að veiða sem nemur 25 prósentum af stærð veiðistofns þorsks en þó aldrei minna en 155 þúsund tonn hvert fiskveiðiár. Var alltaf gert ráð fyrir að þessi regla kæmi til endurskoðunar en það er fyrst nú sem Hafrannsóknastofnun kallar sérstaklega eftir breytingum. Forsenda þess að slíkar breytingar skili árangri er að veiði verði ávallt hóflegt hlutfall af heildarstofni þorsksins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×