Innlent

Sjúkraflutningamenn hóta uppsögnum

Sjúkraflutningamenn við Kárahnjúka hótuðu uppsögnum vegna kjaramála og vinnuaðstæðna. Stöðugt eftirlit þarf með Impregilo til að launagreiðslur séu í lagi, segir trúnaðarmaður starfsmanna. Sjúkraflutningamenn við Kárahnjúka hafa ítrekað krafist úrbóta, bæði á tækjum og búnaði, og á launamálum sínum. Þeir segja að vaktaálagi sé haldið eftir og öryggi sjúkrabílanna sé ekki nægjanlegt. Þeir hafi verið bilaðir og það kostað mikla eftirgengni að fá þá lagaða. Einn þeirra hefur verið tekinn úr umferð. Sjúkraflutningamennirnir hótuðu uppsögnum en drógu þær síðan til baka, í bili að minnsta kosti. En óánægjan er mikil að sögn Odds Friðrikssonar, yfirtrúnaðarmanns starfsmanna, því þeir hafi þurft að standa í stappi alveg frá upphafi. Oddur segist hafa vísað málinu til félags sjúkraflutningamanna en það hafi gengið hægt að ná sáttum. Hann segir nýja yfirmenn vera komna á svæðið og nú sé beðið eftir því að þeir taki á málinu sem verði líklega eftir eina til tvær vikur.  Oddur segir að þá verði sest niður með nýjum yfirmönnum og reynt að koma málunum í lag. Hann segir að launamál íslenskra starfsmanna við Kárahnjúkavirkjun séu að mestu komin í lag, en launamál erlendra starfsmanna séu enn að miklu leyti ófullnægjandi. Það þarf að hafa stöðugt eftirlit með þessum málum til að þetta sé í lagi að sögn Odds 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×