Innlent

ÚA dæmt til að greiða bætur

Útgerðarfélag Akureyringa var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmt til að greiða manni tæplega 16 milljónir króna í skaðabætur vegna slyss sem hann varð fyrir um borð í frystitogaranum Hólmadrangi ST-70 í nóvember árið 1999. Maðurinn starfaði þá sem háseti á dekki um borð í skipinu, þar sem það var á grálúðuveiðum út af Látrabjargi. Slysið vildi þannig til að þegar trollið var tekið inn reyndust í pokanum tvö mjög stór grjót , annað líklega um 200 kíló en hitt um 500 kíló. Maðurinn var ásamt öðrum á dekki að skilja aflann frá grjótinu þegar skipið lagðist skyndilega á stjórnborða. Við það valt grjótið og lenti á manninum með þeim afleiðingum að hann hlaut opið beinbrot á vinstra fæti, rétt fyrir ofan ökkla. Eftir langtíma sjúkraþjálfun og endurhæfingu var talið ljóst að maðurinn gæti ekki sinnt sjómannsstarfi í náinni framtíð. Hásetinn fyrrverandi krafðist um 27 milljóna króna í skaðabætur, en ÚA krafðist þess að verða sýknað af öllum kröfum. Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að slysið mætti að hluta rekja til aðgæsluleysis skipstjórnanda og verkstjóra á þilfari, með því að hafa falið hásetanum að vinna á svæði þar sem hann var í hættu vegna grjótsins. Héraðsdómur taldi rétt að fella 2/3 hluta bótaábyrgðarinnar vegna slyssins á Útgerðarfélagið, eða tæplega 16 milljónir króna, og að maðurinn bæri 1/3 hluta þess sjálfur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×