Innlent

Erfitt að gera betur en þetta

"Það sem hjálpaði mest við að gera Menningarnótt eins vel heppnaða og raun bar vitni var þetta dásamlega veður sem var allan daginn," segir Sif Gunnarsdóttir, verkefnastjóri Menningarnætur í Reykjavík. Hátíðinni lauk í fyrrakvöld með einni mestu flugeldasýningu sem sést hefur í borginni fyrir utan gamlárskvöld og gerðu gestir góðan róm að þeim viðburðum sem í boði voru hvarvetna í miðbænum allan daginn. Sif telur að veðurblíðan hafi gert það að verkum að þeir sem venjulega sitja heima á kvöldum sem þessum hafi í þetta sinn látið sig hafa það að mæta. "Það skiptir afar miklu máli og gerir það að verkum að fólk er miklu tillitssamara en ella væri. Það aftur þýðir að fleiri njóta dagsins betur og láta ekki smáatriði fara eins mikið í taugarnar á sér. Það þarf þolinmæði þegar mannfjöldinn verður slíkur og tiltölulega auðvelt fyrir hlutina að fara úrskeiðis." Að sögn Sifjar voru um 230 mismunandi atburðir skipulagðir á Menningarnótt en á óvart kom sá fjöldi listamanna og verslana sem buðu upp á gjörning af ýmsu tagi sem ekki var hluti af auglýstri dagskrá. "Það kom mér þægilega á óvart hversu víða slíkar sýningar voru í gangi og ég hafði enga hugmynd um." Mest reyndist um tónlistaratriði á þessari Menningarnótt en þó var talsverð breidd í þeim atburðum sem í boði voru. Dans- og myndlistarsýningar voru víða. Gjörningar voru framreiddir á fjölmörgum stöðum og tónleikar Rásar 2 á hafnarbakkanum þóttu takast afar vel. Sif segir að hátíðin hafi gengið það vel að hún hafi strax í gærmorgun farið að hafa áhyggjur af næsta ári. "Það var næstum því mín fyrsta hugsun hvernig í ósköpunum væri hægt að gera betur á næsta ári því það verður afskaplega erfitt." albert@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×