Innlent

Forvarnir gegn sjálfsvígum barna

"Við vitum um sjálfsvígstilraunir barna hér á landi alveg niður í 12-13 ára," sagði Salbjörg Bjarnadóttir, verkefnisstjóri "Þjóðar gegn þunglyndi" og sjálfsvígsforvarna hjá Landlæknisembættinu. Í sérstökum áhættuhópi hvað þetta varðar eru börn með námsörðugleika, börn sem lenda snemma í fíkniefnum, börn með lystarstol og ungir samkynhneigðir sem eru að koma út úr skápnum. Síðastnefndi hópurinn á erfitt uppdráttar, því kynhneigð hans er ekki sú sama og vinanna. Loks má nefna börn, sem lenda í alvarlegu einelti. Landlæknisembættið hefur gefið út bæklinginn "Að koma í veg fyrir sjálfsvíg og sjálfsvígstilraunir meðal unglinga" í tilefni alþjóðlegs sjálfsvígsforvarnadags Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, WHO. Bæklingurinn, sem gefinn var út af Evrópusambandinu, var þýddur og staðfærður. Hann er fyrst og fremst upplýsingarit um sjálfsvíg og sjálfsvígshegðun, ætlað kennurum og öðru starfsfólki í efri bekkjum grunnskóla og í framhaldsskólum. Er útgáfa hans liður í forvarnaverkefninu Þjóð gegn þunglyndi. Yngsti einstaklingurinn sem fallið hefur fyrir eigin hendi og er skráður hjá Landlæknisembættinu var 15 ára. Salbjörg sagði að í nágrannalöndum okkar væru slíkar tölur allt niður í 11-12 ára. Salbjörg sagði að síðustu tölur sem Landlæknisembættið hefði staðfestar um sjálfsvíg ungmenna undir 19 ára aldri væru frá árinu 2000. Hver landsfjórðungur yrði að skila inn tölum til Hagstofunnar og það gengi ekki hraðar en raun bæri vitni. "Árið 2000 var 51 sjálfsvíg hér á landi," sagði Salbjörg. "Þar af voru níu, sem voru 19 ára og yngri, eða 20% af þeim sem fyrirfóru sér. Þetta ár skar sig nokkuð úr, því það höfðu aldrei verið jafn mörg sjálfsvíg og þá. Þær vísbendingar sem við höfum fengið segja okkur, að á síðustu tveimur árum hafi sjálfsvígin verið færri heldur en 2000. Hvað varðar sjálfsvígstilraunir, þá teljum við að hér séu gerðar 500 til 600 sjálfsvígstilraunir á ári." "Við höfum miklar áhyggjur af unga fólkinu," sagði Salbjörg enn fremur. "Það er áhyggjuefni hversu mörg börn eru að gera sjálfsvígstilraunir. Í mörgum tilvikum eru þau einungis að kalla á hjálp með því að skaða sig og fá þá viðeigandi aðstoð."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×