Innlent

Missa skammtímavistun í verkfalli

Fötluð börn sem stunda nám í Öskjuhlíðarskóla missa í kennaraverkfallinu skammtímavist á vegum Svæðisskrifstofa um málefni fatlaðar í Reykjavík og á Reykjanesi. Þá hefur stærstur hluti þeirra enga skóladagvist. Verkfallið kemur því afar hart niður á viðkomandi fjölskyldum, sagði Karlotta Finnsdóttir móðir stúlku sem stundar nám í Öskjuhlíðarskóla. Stór hópur barna í skólanum hefur átt kost á skammtímavist, á þeim tíma dagsins sem þau eru ekki í kennslustundum. Hún er því einungis milli klukkan þrjú - hálffjögur á daginn og átta á morgnanna, nokkra samliggjandi daga í senn. Það þýðir að foreldrar barnanna þyrftu að sækja þau klukkan átta að morgni og vera með þau allan daginn. Grundvöllurinn fyrir vistinni, sem á að gefa foreldrunum kost á að hvílast í nokkra daga er því brostinn í kennaraverkfallinu. "Fötlun minnar dóttur er þannig að hún vill ekki fara mikið að heiman, nema þá í rútínu sem hún er vön," sagði Karlotta. "Hún fer ekki í skammtímavistunina Í Eikjuvogi núna, því þá þyrfti að sækja hana klukkan átta á morgnana, hafa hana heima á daginn og aka henni svo aftur í vistunina síðdegis. Það gengur ekki upp, þótt ekki væri nema vegna þess, að hún yrði enn erfiðari ef meira rót kæmist á hagi hennar en orðið er með því að kennslan hennar í skólanum falli niður." Karlotta sagði, að staðan sem nú væri komin upp bitnaði mjög hart á foreldrum fötluðu barnanna. Sjálf væri hún þrisvar búin að stytta sinn vinnutíma vegna dóttur sinnar og nú væri hún meira eða minna bundin yfir henni eða með hugann hjá henni, ef einhver gætti hennar. "Þetta er orðin spurning um hversu lengi maður heldur vinnunni," sagði hún. "Fötlun dóttur minnar er þannig, að henni hefur gengið afskaplega illa í skólanum, þar til í haust. Þá varð hún svo ánægð og leið svo vel, en þá skall verkfallið á." Karlotta sagði foreldra fatlaðra skólabarna reyna að leysa sín mál með öllum mögulegum ráðum. Í einu tilviki vissi hún til að afi á níræðisaldri væri að reyna að gæta fatlaðs barnabarns sín, svo foreldrarnir kæmust í vinnuna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×