Innlent

Verulegir fjárhagserfiðleikar

Á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga í gær var rætt um bága fjárhagsstöðu sveitarfélaga. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, formaður Sambandsins segir nauðsynlegt að tekjustofnar sveitarfélaganna verði styrktir til að þeir geti á eðlilegan hátt sinnt lögbundnum verkefnum sínum. Meirihluti þeirra eigi við verulega fjárhagserfiðleika að stríða og sé hluti skýringarinnar byggðavandi. Íbúum hafi fækkað verulega, en sveitarfélögin geti ekki að sama skapi dregið þjónustu sína saman. Lögboðnum verkefnum hafi einnig fjölgað án þess að tekjustofnar hafi fylgt. Árni Magnússon sagði á þinginu að ákveðið hafi verið að auka framlög til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um 400 milljónir á þessu ári, og verði hluti þess varið til að aðstoða þau sveitarfélög sem verst eru stödd. Þrjú sveitarfélög eiga meiri skuldir en eignir; Ólafsfjarðarbær, Snæfellsbær og Vestmanneyjar. Í október fengu 23 sveitarfélög bréf frá eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga. Vilhjálmur segir það ekki vísbendingu um slaka fjármálastjórnun. Þetta geti bara verið tímabundinn vandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×