Innlent

Dollarinn í sögulegu lágmarki

MYND/Vísir
Gengi Bandaríkjadollars gagnvart krónunni er komið niður fyrir 66 krónur og hefur það ekki verið jafn lágt í sjö ár. Fyrir nokkrum misserum rauk gengi dollars upp í hundrað og tíu krónur, en lækkaði fljótt aftur og var um hríð á milli 70 og 80 krónur. Hluti af þessari lækkun skýrist af því að krónan hefur hækkað um 3,4 prósent síðan í spetember og hefur hún ekki verið jafn sterk gagnvart erlendum gjaldmiðlum síðan í maí í fyrra. Við þessar aðstæður er afar óhagstætt að flytja út vörur til Bandaríkjanna og er fréttastofu Bylgjunnar kunnugt um að fiskútflytjendur, reyni að takmarka útflutning þangað eins og hægt er, án þess þó að hreinlega glata viðskiptasamböndum í Bandaríkjunum. Aftur á móti er nú mjög hagstætt að flytja inn vörur frá Bandaríkjunum. Sjást þess glögg merki í miklum innflutningi á bandarískum bílum upp á síðkastið. Annar ávinningur er að erlendar skuldir í dollurum lækka og þar með afborganir af þeim. En um styrkingu krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum almennt er það að segja að framleiðsluflyrirtæki eiga mjög á brattann að sækja við þessar aðstæður og fram hefur komið orðrómur um að einstök fyrirtæki íhugi að flytja framleiðslustarfsemi sína úr landi, annað hvort að öllu leyti eða að hluta.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×