Innlent

Skuldir heimilanna hafa nífaldast

Íslendingar skulda meira en flestar aðrar þjóðir í heiminum, og hafa skuldir heimilanna nífaldast síðan 1980. BSRB lét hagfræðinga sína, Hildigunni Ólafsdóttur og Ragnar Ingimundarson, gera fyrir sig skýrslu um skuldir þjóðarbúsins. Þar kemur fram að íslenska þjóðarbúið sekkur sífellt dýpra í skuldasúpuna, og nú er svo komið að Íslendingar skulda meira en flestar aðrar þjóðir í heiminum. Þegar litið er til vestrænna ríkja eru það aðeins Finnar og Ný-Sjálendingar sem eru skuldugri en Íslendingar. Ekki er það ríkinu að kenna, samkvæmt BSRB, því dregið hefur úr skuldum ríkissjóðs á undanförnum árum. Mestu munar um að skuldir fyrirtækja og heimila margfaldast. Til dæmis hafa skuldir heimila frá árinu 1980 nífaldast, og eru nú 180% af ráðstöfunartekjum. Skýringin sem hagfræðingar BSRB hafa á þessu er einfaldlega að nú er auðveldara að taka lán en áður, og vextirnir eru lægri. Bjartsýni ríkir í þjóðfélaginu, sem er líka drifkraftur fyrir skuldasöfnun fyrirtækjanna, sem er með því mesta sem gerist meðal vestrænna ríkja. Útlitið er svart að mati skýrsluhöfunda, Íslendingar munu sökkva enn dýpra í skuldasúpuna með enn lækkandi vöxtum og tilkomu nýrra fasteignalána. Stór hluti launþega hefur þegar ráðstafað hluta af launum sínum fyrirfram og því eru kollsteypur í efnahagslífinu líklegri en áður, ef aðstæður breytast til hins verra í hagkerfinu, að mati skýrsluhöfunda BSRB. Ögmundur Jónasson, formaður BSRB, segir að menn verði að sína fyrirhyggju. Það sé mjög mikilvægt að örva umræðu í þjóðfélaginu um skuldasöfnun þjóðarinnar og fá heimilin til þess að sína varkárni í fjármálum. Það sé rétt að taka gilliboðum bankanna með varúð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×