Innlent

Borgað fyrir boltaæfingar

Stjórn Vinnuskóla Reykjavíkur er að skoða möguleikann á að bjóða fjölbreyttara starfsúrval næsta sumar en verið hefur hingað til. Arnfinnur Jónsson, skólastjóri Vinnuskólans, segir málið hafa verið rætt á fundi stjórnar sl. föstudag og verði áfram til umfjöllunar. "Á vorin hafa komið fram beiðnir á þá leið hvort unglingar gætu sinnt hinum og þessum verkefnum og verið á launum hjá Vinnuskólanum á meðan. Meðal þess sem nefnt hefur verið er körfuboltaæfingar, dagskrárgerð á útvarpsstöð og sitt hvað fleira. Þetta er hins vegar ekki inni í starfsreglum skólans. Stjórnin hefur hins vegar áhuga á að skoða þessa möguleika nánar." Arnfinnur segir málið þó ekki alveg einfalt, því þiggi unglingar laun hjá Vinnuskólanum þurfi að huga að húsbóndaábyrgð skólans á þeim, tryggingum og öðru slíku. "Núna er meiningin að taka tímanlega umræðu um þetta. Ef eitthvað í svona yrði gert þá yrði hægt að kynna það snemma á næsta ári," segir hann. Vinnuskólinn býður unglingum á aldrinum 14 til 16 ára sumarvinnu og segir Arnfinnur að engum vísað frá sem skráir sig.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×