Innlent

Spáð enn meira rennsli í Jökulsá

Veðurstofan spáir enn meira rennsli í Jökulsá á Dal eftir helgi. Menn við Kárahnjúka búa sig undir það versta og hafa bætt hraustlega ofan á varnarstífluna. Verulega hefur dregið úr rennsli í ánni síðasta sólarhring. Vatnborðið hefur sjatnað um 3 til 4 metra frá því sem hæst var og hluti brúarinnar margumtöluðu er komin úr kafi. Þetta gæti þó verið skammgóður vermir því búist er við umtalsverðu flóði eftir helgi samkvæmt veðurspá. Sigurður Arnalds, talsmaður Landsvirkjunar, segir veðurfræðinga vara við enn meira rennsli í næstu viku vegna sólbráðar á jökli. Hann segir þó allt hafa verið gert til að takast á við flóðin. Þær rástafanir felast aðallega í því að varnarstíflan hefur verið hækkuð um ellefu metra. Hún er orðin um 50 metra há, er þar með stærsti varnargarður á íslandi, hærri en bæði Sigöldustífla og Blöndustífla. Sigurður segist ekki eiga von á því að stíflan geti brostið. Ef svo ólíklega vildi til myndi næsta mannvirki fyrir neðan, sem er aðalstíflan og jafnhá stíflunni fyrir ofan, taka við vatninu. Þetta myndi þýða að ekki væri hægt að vinna við távegginn fyrr en sjatnaði í ánni í haust og við það yrði nokkurra mánaða vinnutap.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×