Innlent

Bændur banna hreindýraveiðar

Þrír bændur á Mýrum í Hornafirði leyfa ekki hreindýraveiðar á jörðum sínum þrátt fyrir að þær séu á veiðisvæði, að því er kemur fram á fréttavefnum Horn.is í dag. Stærsta jörðin sem um ræðir er Flatey á Mýrum sem er jörð í eigu ríkisins. Forsvarsmenn Skotveiðifélags Íslands eru ósáttir. Karen Erla Erlingsdóttir, starfsmaður Hreindýraráðs, segir bændur vera í fullum rétti til að loka jörðum sínum fyrir hreindýraveiðum en það geri hreindýraveiðimönnum eðlilega erfitt fyrir. Karen segir þetta ekki vera nýtt af nálinni heldur hafi þessu verið svona háttað mörg undanfarin ár. Á öðrum svæðum ganga veiðar mjög vel að sögn Karenar og búið er að fella yfir hundrað dýr sem er meira en á sama tíma í fyrra. Sigmar B. Hauksson, formaður Skotveiðifélags Íslands, segir þetta ástand vera alsendis óviðunandi og ekki ásættanlegt. Félaginu hafa borist kvartanir í fyrra og í ár útaf þessu og það sé skoðun félagsins að brýnt sé að ríkið og landbúnaðarráðuneytið beiti sér fyrir lausn málsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×