Innlent

Meira nám verði í grunnskólunum

Mikið rými hefur myndast í grunnskólanum til að taka við meira námsefni. Það stafar meðal annars af því að hann hefur lengst um tvö skólaár á síðustu 7 - 8 árum, að sögn Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur menntamálaráðherra. Í skýrslu menntamálaráðuneytisins um breytta námsskipan til stúdentsprófs kemur meðal annars fram sú tillaga, að viðfangsefni byrjunaráfanga á framhaldsskólastigi í ensku, dönsku íslensku og stærðfræði verði flutt til grunnskóla að hluta eða í heild. Sé það liður í að stytta námstíma til stúdentsprófs. Skólaárið í framhaldsskóla verði lengt í 180 daga og verði við gerð nýrrar aðalnámsskrár miðað við 155 kennsludaga. Jafnframt verði aðalnámskrá framhaldsskóla breytt þannig, að áfangar muni stækka sem nemi lengingu kennslutíma. Miðað verði við að nám til stúdentsprófs verði 111 einingar, sem samsvara 119 einingum í núgildandi námsskipan. Nám til stúdentsprófs er nú 140 einingar. Þessar ráðstafanir ásamt fleirum verði til þess að stytta námstímann til stúdentsprófs um eitt ár, úr fjórum í þrjú. "Með þessum breytingum fáum við aukna samfellu í öllu skólastarfinu, allt frá leikskóla og upp í framhaldsskóla," sagði menntamálaráðherra. "Allar þessar breytingar hafa ekki í för með sér lengingu skóladags í grunnskólanum né heldur aukningu á starfstíma kennara. Það er einfaldlega verið að nýta það rými sem hefur skapast innan hans." Ráðherra sagði, að skýrslan væri mjög góður grunur undir að breyta skólakerfinu. "Þetta er eðlilegt næsta skref í þróun okkar skólastarfs sem átt hefur sér stað á undanförnum árum. Byrjað verður að endurskoða námsskrárnar 2006. Stefnan er að fyrstu nemendur inn í nýtt kerfi framhaldsskóla innritist 2007. Árið áður það er í 9. bekk, fari þeir í undirbúningi undir nýtt kerfi," sagði ráðherra, sem bætti við að mjög mikil áhersla yrði lögð á að allar breytingar á starfi og starfstilhögun kennara yrðu gerðar í mikilli sátt. Málið yrði unnið á löngum tíma til að gefa öllum, bæði nemendum og kennurum, tíma til að aðlaga sig að breyttu skólakerfi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×