Fleiri fréttir

Pakistanar fagna 60 ára sjálfstæði

Sextíu ár eru í dag liðin frá því Pakistan fékk sjálfstæði frá Bretum. Þeim tímamótum er fagnað í landinu í dag. 1947 var landið sem nú er Pakistan enn hluti af Indlandi sem Bretar réðu þá. Pakistan varð sjálfstætt ríki 14. ágúst það ár, og Indland degi síðar.

Kona látin úr saurgerlasmiti á Skotlandi

Rúmlega sextug kona er látin og fimm eru mikið veikir vegna saurgerlasmits í Paisley í Skotlandi. Talið er að fólkið hafi smitast þegar það borðaði kalt kjötálegg úr sælkeraborði verslunarkeðjunnar Morrisons. Verslunarkeðjan hefur tekið kjötið úr sölu, og segist í yfirlýsingu miður sín vegna atviksins. 21 létust úr sömu tegund gerilsins í Bretlandi árið 1996. Einkenni saurgerlasmits eru magakrampar, niðurgangur, ógleði og sótthiti.

Kæra fund til FME þar sem atkvæðaskrá hafi verið röng

Deilunum um sameiningu Sparisjóðs Skagafjarðar og Sparisjóð Siglufjarðar virðist hvergi nærri lokið. Hópur smærri stofnfjáreigenda hefur kært aðalfund Sparisjóðs Skagafarðar sem fram fór í gær til Fjármálaeftirlitsins á þeim grundvelli að atkvæðaskrá á fundinum hafi verið röng. Hann sé því ólöglegur.

Skýrsla um Grímseyjarferju reiðarslag

Kolsvört skýrsla Ríkisendurskoðunar um kaup á Grímseyjarferju er reiðarslag, segir Kristján Möller samgönguráðherra. Hann rekur framúrkeyrsluna meðal annars mega rekja til skipaverkfræðings sem Vegagerðin fékk ráðgjöf hjá.

Innbrotahrina á Selfossi í nótt

Brotist var inn í fjögur fyrirtæki í Gagnheiði á Selfossi í nótt. Lögreglan segir að peningum og ýmsum lausamunum, þar á meðal tölvum, hafi verið stolið. Þá hafi ýmsar skemmdir verið unnar. Að sögn lögreglunnar er ekki vitað hverjir voru að verki en málið er í rannsókn.

Síminn tilkynnti aðeins tveimur fjölmiðlum um símasambandsleysi

Upplýsingafulltrúi Símans segir að fyrirtækið hafi sent út tilkynningu þess efnis að símasambandslaust yrði í Bolungarvík strax á Sunnudag. Rafmagnið var tekið af í nótt og hefur bæjarstjórinn gagnrýnt að bæjarbúar hafi ekki verið látnir vita fyrr en síðdegis í gær. Tilkynningin frá Símanum var hins vegar aðeins send til Ríkisútvarpsins og á ritstjórn Bæjarins besta.

Gin- og klaufaveiki mögulega komin upp á fjórða bænum

Yfirdýralæknirinn í Bretlandi segir grun um gin- og klaufaveiki á fjórða bænum í Kent. Í samtali við BBC vildi Debby Reynolds ekki gefa upp hvar bærinn er, en sagði að öryggissvæði hafi verið afgirt kringum hann. Beðið er niðurstöðu úr rannsóknum á nautgripum á bænum, en Reynold benti á að margt væri líkt með þessu máli og öðru sem kom upp í síðustu viku þegar grunur um smit á bæ í Surrey reyndist rangur.

Handtökuskipun á eiganda Man City staðfest

Hæstiréttur í Tælandi hefur staðfest handtökuskipun sem gefin var út á hendur Thaksin Shinawatra, fyrrverandi forsætisráðherra landsins og eiginkonu hans, fyrir skömmu. Handtökuskipunin var upphaflega gefin út vegna þess að Thaksin mætti ekki fyrir rétt til að svara spillingarákærum vegna sölu á landi sem hann átti í miðborg Bangkok árið 2003, þegar hann var ennþá forsætisráðherra.

Rafmagni komið á í Kópavogi

Rafmagni hefur verið komið á í Kópavogi en rafmagn fór af í Sala- og Kórahverfi og í Hvörfum rétt fyrir klukkan tíu. Bilunin hefur verið rakin til þess að grafinn var í sundur háspennustrengur.

Sýslumaðurinn á Selfossi sorgmæddur

Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður á Selfossi, segir þau slys sem hafa orðið í umferðinni undanfarið vera mjög sorgleg. Hann segir það vera algert grundvallaratriði að fólk noti bílbelti og viðeigandi öryggisbúnað fyrir börn. Þá segir hann mikilvægt að fólk aki varlega og í samræmi við aðstæður.

Banvænn akstur í umdæmi Selfosslögreglu

Af sjö banaslysum sem orðið hafa í umferðinni í ár hafa fjögur þeirra verið í umdæmi lögreglunnar á Selfossi. Þá lést ökumaður eftir árekstur bifhjóls og strætisvagns við Akranes 16. júlí síðastlðinn. Í byrjun júlí lést ökumaður eftir bílveltu við Norðurá og banaslys varð eftir bílveltu í Hörgárdal í mars.

Svört skýrsla um Grímseyjarferju

Í svartri skýrslu Ríkisendurskoðunar um endurnýjun Grímseyjarferju gagnrýnir stofnunin harðlega verklag yfirvalda. Samgöngu- og Fjármálaráðuneyti, ásamt Vegagerðinni, gerðu með sér samkomulag um að fjármagna kaupin og endurbæturnar með ónýttum heimildum Vegagerðarinnar. Stenst á engan hátt ákvæði fjárreiðulaga og getur ekki talist til góðrar stjórnsýslu, segir stofnunin.

Íslaust Norðurheimskaut árið 2040

Vísindamenn búast við því að magn íss á norðurheimskautinu muni ná metlægðum í lok þessa sumars. Mælingar sem Snjó og ís rannsóknarstofnun Bandaríkjanna gerði benda til þess að um þrjátíu prósent minna sé af sjóís nú en í meðalári. Þar sem ís heldur áfram að bráðna fram í miðjan september reikna vísindamennirnir með því að þá verði minna af ís en nokkru sinni áður. Þeir spá því að norðurheimskautið verði orðið íslaust með öllu á sumrin árið 2040.

Bandaríkjamenn kanna tilkall til norðurskautsins

Skip á vegum bandarísku strandgæslunnar er nú á leið í rannsóknarleiðangur á norðurskautið til að kortleggja sjávarbotninn fyrir norðan Alaska. Markmið leiðangursins er að athuga hvort hluti norðurskautsins megi teljast vera bandarískt landsvæði. Bandaríkjamenn neita því hins vegar að ferðin tengist vaxandi samkeppni þjóða um yfirráð yfir Norðurpólnum.

Áfram reynt að bjarga námuverkamönnunum í Utah

Björgunarmenn í Utah fylki í Bandaríkjunum undirbúa nú að bora þriðju holuna í átt til námuverkamannanna sex sem enn er saknað eftir kolanámur hrundu saman síðastliðinn mánudag. Ekkert hefur til mannanna spurst frá því námurnar hrundu og því ekki vitað hvort þeir séu enn á lífi.

Keyrt á tíu ára gamlan dreng í Búðardal

Keyrt var á tíu ára gamlan dreng á Vesturbraut í Búðardal um fjögurleytið í dag. Drengurinn hjólaði í veg fyrir bifreið með fyrrgreindum afleiðingum. Hann var fluttur á sjúkrahús í Reykjavík til aðhlynningar en ekki er talið að hann sé alvarlega slasaður.

Svifdrekamaður brotlendir á Reykjafelli

Karlmaður slasaðist þegar svifdreki sem hann var á brotlenti í norðurhlíðum Reykjafells laust eftir klukkan sex í kvöld. Maðurinn var fluttur á slysadeild.

Sofnaði undir stýri og lenti í árekstri

Umferðaróhapp varð á Reykjanesbraut við Vogaafleggjara laust fyrir klukkan sjö í kvöld. Ökmaður fólksbíls sofnaði undir stýri með þeim afleiðingum að hann fór yfir á öfugan vegarhelming og lenti á bíl sem kom úr gagnstæðri átt.

Sextíu slasast í sprengingu í Rússlandi

Að minnsta kosti 60 slösuðust þegar sprenging olli því að farþegalest fór útaf spori í Rússlandi í dag. Lestin var á leið frá Moskvu til Pétursborgar þegar atvikið átti sér stað. Ekki liggur fyrir hvað olli sprengingunni.

Alvarlegt umerðarslys við Grímslæk í Ölfusi

Alvarlegt umferðaróhapp átti sér stað við Grímslæk í Ölfusi síðdegis í dag. Ökumaður missti stjórn á bíl sínum með þeim afleiðingum að hann valt útaf veginum. Þyrla Landhelgisgæslunnar var send á staðinn til að sækja ökumanninn.

Skjálftar við Upptyppinga tengjast ekki fyllingu Hálslóns

Skjálftarnir við Upptyppinga tengjast ekki fyllingu Hálslóns né Öskju samkvæmt mælingum sem jarðvísindamenn gerðu á svæðinu. Vísindamennirnir eru nú að störfum við Mývatn en munu síðar í mánuðinum fara að Kárahnjúkavirkjun til mælinga.

Létu slökkviliðsstjóra Bolungarvíkur ekki vita af lokunum á símasambandi

Síminn lét slökkviliðsyfirvöld í Bolungarvík ekki vita af fyrirhuguðum lokunum á símasambandi í bæjarfélaginu í nótt. Slökkviliðsstjórinn frétti fyrst af málinu í fjölmiðlum síðdegis í dag. Allt símasamband í Bolungarvík verður rofið í tvo klukkutíma í nótt vegna viðhaldsvinnu. Bæjarstjórinn er afar ósáttur við framgöngu Símans í málinu.

Þyrlurnar að æra íbúana

Íbúar í litla Skerjafirði eru ævareiðir vegna þyrluflugs í og við nágrenni þeirra. Þeir segja húsin nötra og skjálfa þegar þyrlurnar eru gangsettar og þeim flogið yfir hverfið. Ítrekaðar kvartanir þeirra til borgaryfirvalda hafa engan árangur borið.

Kalashnikov riffillinn 60 ára

Kalashnikov árásarriffillinn rússneski er sextugur á þessu ári. Hönnur þessa heimsfræga drápstóls var heiðraður fyrir hönnunina í heimabæ sínum í dag. Þar bölvaði hann eftirlíkingum og sagðist gleðajst þegar sköpunarverk sitt væri notað í göfugum tilgangi.

Kringlan fagnar 20 ára afmæli í dag

Kringlan fagnar 20 ára í afmæli í dag. Á þessum tuttugu árum hafa hartnær hundrað milljónir gesta komið í þessa vinsælu verslunarmiðstöð. Sérhver Íslendingur hefur eytt nærri þrjú hundruð klukkustundum í Kringlunni frá því hún var opnuð.

2 gíslum sleppt, 18 enn í haldi

Uppreisnarmenn Talíbana í Afganistan létu í dag tvær suður-kóreskar konur lausar úr gíslingu. 18 Suður-kóreumenn eru þó enn í haldi þeirra.

Gæti færst að hluta undir borgaralega stjórn

Forsætisráðherra segir vel koma til greina að einhver hluti af rekstri íslenska ratsjárstöðvarkerfisins færist undir borgaralega aðila. Íslendingar taka við rekstri þess á miðvikudaginn.

Síminn hjálpar til við fjölgun á ástarviku í Bolungarvík

Síminn mun líklega hjálpa rækilega til við fjölgun Bolvíkinga á ástarvikunni en fyrirtækið mun loka fyrir allt símasamband í Bolungarvík í nótt. Ástarvikan stendur nú sem hæst í Bolungarvík en þessa dagana leggja Bolvíkingar þá mikið kapp á að fjölga sér. Á ástarvikunni er einlægt góð stemmning í bænum og kapp er lagt á að bæjarbúar láti vel að mökum sínum.

Á fjórða hundrað manns rannsakaðir vegna smitandi berkla

Rannsaka þurfti 157 einstaklinga á Norðurlandi eftir að vistmaður á elliheimili þar greindist með smitandi berkla í maí. Þetta kemur fram í Farsóttafréttum sóttvarnarlæknis. Þá standa enn yfir rannsóknir á starfsmönnum við Kárahnjúkavirkjun eftir að starfsmaður þar greindist með smitandi berkla. Sóttvarnarlæknir segir um hefðbundnar aðgerðir að ræða sem miði að því að koma í veg fyrir útbreiðslu sjúkdómsins.

Allt símasamband í Bolungarvík rofið - grafalvarlegt mál segir bæjarstjóri

Bæjastjórinn í Bolungarvík gagnrýnir Símann harðlega fyrir að láta bæjaryfirvöld vita of seint af fyrirhuguðum viðgerðum á símstöðinni í Bolungarvík. Allt símasamband í Bolungarvík fellur niður milli klukkan tvö og fjögur í nótt vegna viðgerða þar á meðal samband við Neyðarlínuna. Bæjarstjórinn segir um grafalvarlegt mál að ræða.

Skákborðsmorðinginn fyrir rétt

Rússneskur fjöldamorðingi hefur verið ákærður fyrir að myrða 49 manneskjur í Moskvu. Alexander Pichushkin, ætlaði sér að merkja alla 64 reitina á skákborði með nöfnum fórnarlamba sinna og er hann því kallaður „skákborðs morðinginn“ af rússneskum fjölmiðlum. Þegar hann var handtekinn játaði hann fyrir lögreglu að hafa myrt 61 mann í Bittsa garðinum í Moskvu.

Allt að gerast um borð í Endeavour

Geimfarar um borð í geimskutlunni Endeavour eru lagðir af stað í aðra geimgöngu sína á Alþjóðageimstöðinni. Erindi þeirra er að skipta um einn af snúðvísum stöðvarinnar. Ráðgert er að geimgangan vari í sex og hálfa klukkustund. Fjórar geimgöngur eru áætlaðar.

Á slysadeild eftir bifhjólaslys

Bifhjólamaður var fluttur á slysadeild eftir að hann féll af hjóli sínu á Reykjanesbraut, nærri Vífilstaðarvegi, rétt fyrir klukkan þrjú í dag. Maðurinn hefur nú verið fluttur á gjörgæsludeild Landspítala-Háskólasjúkrahúss. Vakthafandi læknir þar treysti sér ekki til að meta ástand hans að svo stöddu.

Atvinnuleysi undir 1 prósenti

Atvinnuleysi mældist 0,9% í júli og hefur ekki verið minna síðan í október 2000 að því er fram kemur hjá Vinnumálastofnun. Á sama tíma í fyrra var atvinnuleysi 1,4% og hefur það verið með lægsta móti frá miðju ári 2005

Fuglaflensa dregur konu til dauða á Balí

29 ára indónesísk kona lést úr fuglaflensu á eyjunni Balí í gær. Þetta staðfesti heilbrigðisráðuneyti landsins í dag. Þetta er fyrsta mannslát vegna fuglaflensuveirunnar á eyjunni. Samkvæmt yfirlýsingu frá ráðuneytinu lést konan með háan hita á sjúkrahúsi.

Kínverskur leikfangaframleiðandi hengir sig

Forstjóri leikfangaverksmiðju í Kína hefur framið sjálfsmorð í kjölfar hneykslismáls en innkalla þurfti milljónir Fisher Price leikfanga sem framleidd voru í verksmiðjunni. Forstjórinn fannst látinn í verksmiðjunni á laugardag að því er kínverskir fjölmiðlar greina frá.

Fimm ára gamall maraþonhlaupari pyntaður

Biranchi Das þjálfari hins fimm ára gamla indverska maraþonhlaupara Budhia Singh hefur verið ákærður fyrir að misþyrma drengnum. Das var handtekinn eftir að móðir drengsins tilkynnti að hún hefði fundið ör á syni hennar. Þjálfarinn neitar þessum ásökunum.

Verður ekki kærður fyrir þýðingu á Harry Potter

Franskur táningspiltur, sem var handtekinn fyrir að þýða nýjustu Harry Potter bókina yfir á frönsku og birta á netinu, án tilskilinna leyfa, verður ekki kærður fyrir athæfið. Útgefandi bókarinnar í Frakklandi ákvað í samráði við höfundinn, JK Rowling, að falla frá kæra.

Farið fram á að Marta Lovísa afsali sér titlinum

Farið er fram á það í norska blaðinu Bergens Tidende í dag að norska prinsessan Marta Lovísa afsali sér titlinum. Í blaðinu er því haldið fram að hún nýti sér titilinn og frægðina til að græða peninga, en hún hefur komið á fót skóla þar sem nemendum er kennt að tala við engla.

Breiðavíkurdrengirnir boðaðir í stjórnarráðið

Nefnd sú sem ríkisstjórnin setti á laggirnar til að rannsaka Breiðavíkurmálið er nú að taka viðtöl við þá sem dvöldu á Breiðavíkurheimilinu á árunum 1950 til 1980. Eru viðkomandi boðaðir í viðtal í húsakynni forsætisráðuneytisins við Hverfisgötu. Viðtölin hófust í síðustu viku og munu standa næstu þrjár vikurnar.

Sjá næstu 50 fréttir