Innlent

Síminn hjálpar til við fjölgun á ástarviku í Bolungarvík

Síminn mun líklega hjálpa rækilega til við fjölgun Bolvíkinga á ástarvikunni en fyrirtækið mun loka fyrir allt símasamband í Bolungarvík í nótt. Ástarvikan stendur nú sem hæst í Bolungarvík en þessa dagana leggja Bolvíkingar þá mikið kapp á að fjölga sér. Á ástarvikunni er einlægt góð stemmning í bænum og kapp er lagt á að bæjarbúar láti vel að mökum sínum.

Það lítur út fyrir að síminn ætli að hlaupa undir bagga með Bolvíkingum í þetta skiptið því símnotendur í Bolungarvík verða algerlega sambandslausir milli klukkan tvö og fjögur í nótt. Þeir verða því ekki truflaðir á meðan við athafnir þar sem reynir á frjósemina.



Sambandsleysið í nótt orsakast af vinnu við tengingar í símstöðinni í Bolungarvík. Og þótt Síminn biðjist velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta kann að valda þá er ekki víst að óþægindin séu svo tilfinnanleg í þetta skiptið. Linda Björk Waage, talsmaður Símans, vonast jafnvel til að aðgerðir Símans í nótt komi til með að fjölga íbúum í Bolungarvík og í leiðinni viðskiptavinum Símans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×