Innlent

Allt símasamband í Bolungarvík rofið - grafalvarlegt mál segir bæjarstjóri

MYND/365

Bæjastjórinn í Bolungarvík gagnrýnir Símann harðlega fyrir að láta bæjaryfirvöld vita of seint af fyrirhuguðum viðgerðum á símstöðinni í Bolungarvík. Allt símasamband í Bolungarvík fellur niður milli klukkan tvö og fjögur í nótt vegna viðgerða þar á meðal samband við Neyðarlínuna. Bæjarstjórinn segir um grafalvarlegt mál að ræða.

Í tilkynningu sem Grímur Atlason, bæjarstjóri Bolungarvíkur, sendi frá sér í dag eru verklagsreglur Símans í tengslum við fyrirhugaðar viðgerðir gagnrýndar harðlega. Þar kemur fram að bæjaryfirvöld hafi fyrst fengið tilkynningu um sambandsleysið um klukkan tvö í dag. Þá segir ennfremur í yfirlýsingunni að um grafalvarlegt mál sé að ræða þegar þúsund manna byggðarlag sé sambandslaust við umheiminn í tvær klukkustundir. Slíkt þurfi að undirbúa og kynna með öðrum hætti en gert hafi verið. Er ábyrgðin sögð vera Símans.

Vegna vinnu við tenginar í símstöðinni í Bolungarvík verða símnotendur tengdir símstöðinni sambandslausir milli klukkan tvö og fjögur í nótt. Farsímasamband mun einnig rofna en NMT kerfið verða virkt. Komi upp neyðarástand er íbúum bent á að leita á lögreglustöðina en þar verður sérstök vakt í nótt.

Linda Björg Waage, upplýsingafulltrúi Símans, sagði í samtali við Vísi að hefðbundnum verklagsreglum hafi verið fylgt í þessu máli. Stærri fyrirtæki og Neyðarlínan hafi verið látin vita fyrir helgi en aðrir með sólarhrings fyrirvara. „Þetta eru nauðsynlegar viðhaldsaðgerðir og óhjákvæmilegt að rjúfa símasamband vegna þeirra. Hins vegar er um stutt rof að ræða og við teljum okkur vera búin að lágmarka óþægindin."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×