Innlent

Svört skýrsla um Grímseyjarferju

Kristján L. Möller, núverandi samgönguráðherra, gagnrýndi málið harðlega á sínum tíma.
Kristján L. Möller, núverandi samgönguráðherra, gagnrýndi málið harðlega á sínum tíma. MYND/Vilhelm

Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar sem birt var í dag kemur fram að rekja megi mörg þeirra vandamála sem upp hafa komið í tengslum við endurnýjun Grímseyjarferju til ófullnægjandi undirbúnings áður en kaupin voru gerð. Stofnunin gagnrýnir harðlega að 400 milljónir hafi þegar farið í verkið úr ríkissjóði. Samgöngu- og Fjármálaráðuneyti, ásamt Vegagerðinni, gerðu með sér samkomulag um að fjármagna kaupin og endurbæturnar með ónýttum heimildum Vegagerðarinnar. „Að mati Ríkisendurskoðunar stenst þessi aðferð á engan hátt ákvæði fjárreiðulaga og getur ekki talist til góðrar stjórnsýslu."

„Slíkar greiningar hefðu veitt gleggri og nákvæmari upplýsingar þegar mögulegir kostir voru vegnir og metnir," segir í samantekt skýrslunnar. „Skoðun ferjunnar áður en hún var keypt var ábótavant. Eftir að viðgerðir á henni hófust kom í ljós að ástand hennar var lakara en athuganir sem gerðar voru fyrir kaupin bentu til."

Þá er bent á að Siglingastofnun hafi varað við því að ástand ferjunnar kynni að vera mun lakara en fyrstu athuganir gáfu til kynna og mælti með ítarlegri skoðun í matsskýrslu. „Með því móti hefði að öllum líkindum mátt draga verulega úr aukaverkum og þar með lágmarka kostnað í formi aukaverka við viðgerðina. Jafnframt hefði nákvæmari skoðun auðveldað mat á öðrum kostum og samanburð við þá."

Ríkisendurskoðun gerir athugasemdir við losarabrag á kostnaðaráætlunum og skort á formfestu þegar ákvarðanir voru teknar um aukaverk vegna endurbóta á ferjunni. „Tíðar og síðbúnar kröfur Grímseyinga, sem yfirleitt hafa komið fram fyrir milligöngu samgönguráðuneytisins, hafa gert Vegagerðinni afar erfitt um vik.

Í lok samantektarinnar gagnrýnir Ríkisendurskoðun harðlega „þá staðreynd að nú þegar hafa verið greiddar tæplega 400 m.kr. úr ríkissjóði til verksins, en í 6. grein fjárlaga 2006 er aðeins veitt heimild til „að selja Grímseyjarferjuna m/s Sæfara og ráðstafa andvirðinu til kaupa eða leigu á annarri hentugri ferju"."

„Samkvæmt samkomulagi fjármálaráðuneytisins, samgönguráðuneytisins og Vegagerðarinnar hafa bæði kaupin og endurbæturnar verið fjármögnuð með ónýttum heimildum Vegagerðarinnar. Þegar kaupin voru gerð og endurbætur hófust var ekki gert ráð fyrir útgjöldum þeirra vegna á samgönguáætlun. Að mati Ríkisendurskoðunar stenst þessi aðferð á engan hátt ákvæði fjárreiðulaga og getur ekki talist til góðrar stjórnsýslu," segir að lokum í samantektinni.

Skýrsluna má skoða í heild sinni hér að neðan.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×