Innlent

Á fjórða hundrað manns rannsakaðir vegna smitandi berkla

Haraldur Briem, sóttvarnarlæknir. Alls greindust 12 einstaklingar með berkla hér á landi á síðasta ári. Um helmingur þeirra eru útlendingar.
Haraldur Briem, sóttvarnarlæknir. Alls greindust 12 einstaklingar með berkla hér á landi á síðasta ári. Um helmingur þeirra eru útlendingar. MYND/Hari

Rannsaka þurfti 157 einstaklinga á Norðurlandi eftir að vistmaður á elliheimili þar greindist með smitandi berkla í maí. Þetta kemur fram í Farsóttafréttum sóttvarnarlæknis. Þá standa enn yfir rannsóknir á starfsmönnum við Kárahnjúkavirkjun eftir að starfsmaður þar greindist með smitandi berkla. Sóttvarnarlæknir segir um hefðbundnar aðgerðir að ræða sem miði að því að koma í veg fyrir útbreiðslu sjúkdómsins.

„Svona kemur fyrir nokkrum sinnum á ári," sagði Haraldur Briem, sóttvarnarlæknir, í samtali við Vísi. „Hættan er alltaf til staðar en ef tekið er á þessu snemma þá er hægt að koma í veg fyrir útbreiðslu."

Rannsaka þurfti 93 heilbrigðisstarfsmenn, 39 aðstandendur og 25 vistmenn eftir að 84 ára gamall vistmaður á elliheimili fyrir Norðan greindist með smitandi berkla í maímánuði síðastliðnum. Talið er að maðurinn hafi smitast snemma á síðustu öld en sjúkdómurinn ekki greinst í honum fyrr en nú. Fram kemur í Farsóttafréttum að niðurstöður rannsóknarinnar bendi til að engin hafi smitast af berklum.

Þá voru 159 starfsmenn við Káranhnjúkavirkjun rannsakaðir eftir að smitandi berklar greindust í portúgölskum starfsmanni. Rannsókn stendur enn yfir en lokið er rannsókn á 68 starfsmönnum. Fimm þeirra greindust með jákvætt berklapróf en voru þó ekki með lungnaberkla.

Maðurinn sem greindist upprunalega dvaldist um tíma á Fjórðungssjúkrahúsinu á Neskaupstað og voru starfsmenn þess einnig sendir í rannsókn. Niðurstöður þeirrar rannsóknar liggja ekki fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×