Innlent

Kringlan fagnar 20 ára afmæli í dag

Kringlan fagnar 20 ára í afmæli í dag. Á þessum tuttugu árum hafa hartnær hundrað milljónir gesta komið í þessa vinsælu verslunarmiðstöð. Sérhver Íslendingur hefur eytt nærri þrjú hundruð klukkustundum í Kringlunni frá því hún var opnuð.

Á þessum degi fyrir tveimur áratugum klippti Pálmi Jónsson kenndur við Hagkaup á borða og bauð Íslendingum að versla í fyrstu íslensku verslunarmiðstöðinni sem gerð var að erlendri fyrirmynd.

Pálmi Jónsson var aðalhvatamaðurinn að byggingu Kringlunnar. Hápunkturinn á afmæli Kringlunnar verður líklega á næsta laugardag en þá mun Ingibjörg Pálmadóttir, dóttir frumkvöðulsins, afhjúpa brjóstmynd af föður sínum. Brjóstmyndin er gjöf Ingibjargar á þessum tímamótum.

Fjöldi heimsókna í þessa vinsælu verslunarmiðstöð er rösklega 98 milljónir á þessum 20 árum og lætur það nærri að hver einasti núlifandi Íslendingur hafi komið í Kringluna 327 sinnum frá því hún var fyrst opnuð. Hver einstaklingur hefur varið þar hartnær þrjú hundruð klukkustundum.

Allir þeir Íslendingar sem eru nákvæmlega jafnaldrar Kringlunnar fá gjafir frá verslunarmiðstöðinni við þessi tímamót.

Kringlan hefur stækkað og vaxið eins og aðrir Íslendingar og er hún nú 52 þúsund fermetrar ef allt er talið og stækkaði mest við sameininguna við Borgarkringluna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×