Innlent

Kæra fund til FME þar sem atkvæðaskrá hafi verið röng

Deilunum um sameiningu Sparisjóðs Skagafjarðar og Sparisjóð Siglufjarðar virðist hvergi nærri lokið. Hópur smærri stofnfjáreigenda hefur kært aðalfund Sparisjóðs Skagafarðar sem fram fór í gær til Fjármálaeftirlitsins á þeim grundvelli að atkvæðaskrá á fundinum hafi verið röng. Hann sé því ólöglegur.

Samþykkt var á fundinum að sameina sjóðina en hópur minni stofnfjáreigenda segir hins vegar að við atkvæðagreiðsluna í gær hafi ekki verið tekið tillit til bersýnilegra tengsla aðila og virka eignarhluta sem eru fyrir hendi. Hópurinn bendir á að forsvarsmenn Kaupfélags Skagfirðinga, sem áttu áður virkan eignarhlut í Sparisjóðnum, hafi ekki tilkynnt til Fjármálaeftirlitsins að sá virki eignarhlutur væri ekki fyrir hendi lengur og það sé brot á lögum.

Þá hafi stórum hluta þeirra stofnbréfa Kaupfélags Skagfirðinga og dótturfyrirtækja þess sem voru virkir verið dreift á aðila sem tengdir væru KS í gegnum eignarhaldsfélag Samvinnutrygginga.

Bjarni Jónsson, sem leggur fram kæruna fyrir hönd Fræðaveitunnar, sem er stofnfjáreigenda í Sparisjóði Skagafjarðar, segir að baráttu minni hluthafa sé fjarri því lokið. „Við teljum að við getum enn þá fengið tækifæri til þess að byggja upp öflugan og sjálfstæðan sparisjóði og aukið stofnféð," segir Bjarni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×