Innlent

Skjálftar við Upptyppinga tengjast ekki fyllingu Hálslóns

Skjálftarnir við Upptyppinga tengjast ekki fyllingu Hálslóns né Öskju samkvæmt mælingum sem jarðvísindamenn gerðu á svæðinu. Vísindamennirnir eru nú að störfum við Mývatn en munu síðar í mánuðinum fara að Kárahnjúkavirkjun til mælinga.

Þrátt fyrir að skjálftarnir við Upptyppinga hafi hafist á svipuðum tíma og fylling Hálslóns hófst er ekki talið líklegt að þeir tengist því. Freysteinn Sigmundsson, jarðeðlisfræðingur, sagði í samtali við fréttastofu telja það vera tilviljun eina að skjálftahrinur á þessum stað byrjuðu að mælast á sama tíma og fyllilng lónsins hófst. Ekkert benti til að þetta tengdis á neitt hátt.

Jarðvísindamenn endurmældu allt Kverkfjallasvæðið í síðustu viku en niðurstöðu úr þeim mælingum er ekki að vænta fyrr en með haustinu. Þó sýndu hallamælingar á Öskju að þrýstingslækkun hennar heldur áfram eins og hún hefur gert undnafarna áratugi. Það þýðir að engin tengsl eru á milli skjálftanna við Upptyppinga og Öskju. Enn er því á huldu hvort skjálftarnir muni leiða til eldgoss eða ekki.

Undanfarna daga hafa aðeins nokkrir skjálftar mælst á svæði nærri Upptyppingum, í svokölluðum Herðubreiðartöglum. Skjálftarnir hafa því færst lítillega úr stað, eru færri en áður og aðeins grynnri. Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur sagði í samtali við fréttastofu í morgun það ekki endilega þýða að allt sé þar með kyrrum kjörum, það væri aldrei vita hvort skjálftarnir tækju sig upp á ný. Hann sagði það segja sína sögu að ekki skuli þykja fréttnæmt að nokkrir skjálftar mælist á svæðinu dag hvern.

Páll er ásamt öðrum vísindamönnunum staddur í Mývatnssveit við mælingar á Kröflusvæðinu. Síðar í mánuðinum munu þeir svo halda til Kárahnjúka þar sem verður endurmælt, en svæðið var allt mælt í fyrra og árið þar á undan. Páll sagði þær mælingar sem nú verði gerðar, þær fyrstu síðan fyllt var í Hálslón. Niðurstöðurnar munu svo sína hvaða áhrif ef einhver fylling Hálslóns hafi á sprungusvæðið sem þar er undir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×