Fleiri fréttir

Vináttusamningur undirritaður

Loftferðasamningur milli Íslands og Moskvuborgar var meðal þess sem borgarstjórinn í Reykjavík ræddi á fundi sínum með borgarstjóra í Moskvu í vikunni. Vináttusamningur milli borganna var undirritaður við það tækifæri.

Stórstjörnur stigu á stokk

Stórstjörnur hafa stigið á stokk í öllum álfum í dag til að vekja athygli á þeirri hættu sem steðjar að heiminum vegna loftslagsbreytinga. Live Earth tónleikar vour haldnir í níu stórborgum til styrktar umhverfinu.

11 ferðamenn í sjálfheldu í Hvannagili

Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar eru nú á leið í Þórsmörk eftir að beiðni um aðstoð barst frá hópi 11 ferðamanna sem eru í sjálfheldu í Hvannagili. Þyrla landhelgisgæslunnar hefur einnig verið kölluð út.

Lýst eftir 17 ára stúlku

Lögreglan á Höfuðborgarsvæðinu lýsir eftir 17 ára stúlku, Kolbrúnu Söru Runólfsdóttur. Ekki hefur sést til Kolbrúnar Söru síðan síðastliðinn þriðjudag. Hún er talin vera á höfuðborgarsvæðinu.

Ekki hissa þótt ráðherrann fjúki

Formaður Rafiðnaðarsambandsins sakar stjórnmálamenn um að spila með öryggi 300 ungra fjölskyldna á Keflavíkurflugvelli á ósvífin og óábyrgan hátt. Aldrei hafi staðið til að fara að íslenskum öryggiskröfum í rafmagnsmálum á svæðinu .

14 skólabörn látast í rútuslysi í Indónesíu

Minnst 14 létust og 48 slösuðust þegar rúta steyptist tuttugu metra niður í gil á indónesísku eynni Jövu í dag. Flestir hinna látnu voru grunnskólanemar á leið í skólaferðalag. Bremsur rútunnar biluðu þegar bílstjórinn reyndi að taka fram úr öðru ökutæki á miklum hraða. Hann keyrði á þrjá bíla og tvö mótorhjól áður en hann steyptist niður í gilið. Rútan var ein af fimmtán sem fluttu nemendurna, foreldra þeirra og kennara til Ciobus, sem er vinsæll ferðamannastaður í fjalllendi Vestur-Jövu.

Mýrin kosin besta mynd Karlovy Vary hátíðarinnar

Kvikmyndin Mýrin í leikstjórn Baltasar Kormáks var valin besta myndin á kvikmyndahátíðinni Karlovy Vary í Prag í Tékklandi í dag og hlaut þar með kristalshnöttinn, aðalverðlaun hátíðarinnar.

Sundi yfir Ermasund frestað fram á kvöld

Benedikt Lafleur sem hugðist leggja upp í sundferð yfir Ermasundið á hádegi í dag þurfti að fresta sundinu vegna öldugangs og strauma. Benedikt ætlaði að tileinka sund sitt baráttunni gegn mansali og klámvæðingu. Hann gerir ráð fyrir að sundið frá Dover í Englandi til Calais í Frakklandi taki um tuttugu klukkustundir. Sundkappinn hyggst reyna aftur við sundið klukkan sex í kvöld, eða í síðasta lagi klukkan þrjú í nótt, en þá er spáð algjöru logni á svæðinu og ætti því að viðra betur til sundferða.

Fimm sárir eftir skotárás í spilavíti

Fimm særðust þegar maður hóf skothríð í New York-New York spilavítinu í Las Vegas upp úr hádegi í gær. Að sögn lögreglu hafði maðurinn ráfað um nálægar götur í einn og hálfan sólarhring áður en hann lét til skarar skríða. Hún lýsti manninum sem alvarlega tilfinningalega trufluðum.

Tvær þotur millilentu á Keflavíkurflugvelli vegna veikra farþega

Tvær erlendar farþegaflugvélar á leið yfir Atlantshaf lentu með skömmu millibili á Keflavíkurflugvelli í gær til að láta af sjúklinga samkvæmt upplýsingum Flugmálastofnunar. Um klukkan 13.30 lenti þýsk flugvél af gerðinni Airbus A319 með flugfreyju sem veikst hafði í fluginu og kl. 15.10 lenti Boeing B-747 breiðþota Virgin Atlantic flugfélagsins með sjúkan farþega. Bæði voru flutt á sjúkrahús til aðhlynningar en flugvélarnar héldu áfram förinni eftir stutta viðdvöl.

Staðbundin áhrif kvótaskerðingar fimm milljarðar á Vesturlandi

Snæfellsbær tapar um tveimur milljörðum vegna skerðingar á aflaheimildum samkvæmt nýrri rannsókn. Forseti bæjarstjórnar gefur lítið fyrir mótvægisaðgerðir stjórnvalda og og vill láta flytja Hafrannsóknarstofnun í bæinn. Alls eru staðbundin áhrif vegna kvótaskerðingar um fimm milljarðar árlega á Vesturlandi, lang mest í Snæfellsbæ.

Live Earth í dag

Þekktir tónlistarmenn rokka víða um heim í dag og vilja með tónlist sinni vekja athygli á loftslagsmálum. Tónleikar þar sem hver stórstjarnan kemur fram á fætur annarri eru haldnir í níu borgum í öllum álfum heims og voru það Ástralir og Kínverjar sem hófu leikinn í nótt.

Brotið gegn trú- og samviskufrelsi í Noregi

Norska ríkið braut á rétti barna til að fá tilhlýðilega menntun með kennslu í kristinfræði, trúfræði og lífsskoðunum. Þetta var niðurstaða Mannréttindadómstóls Evrópu í Strasborg á dögunum. Siðmennt á Íslandi segir að dómurinn renni stoðum undir gagnrýni félagsins hér á landi.

Krefst þess að bresk stúlka verði látin laus

Umaru Yar'Adua, forseti Nígeru, hefur krafið mannræningja þar í landi um að láta þriggja ára breska stúlku lausa án tafar en henni var rænt í vikunni. Hann hefur skipað öryggissveitum að tryggja að henni verið skilað heilu og höldnu til foreldra sinna. Móðir stúlkunnar segir mannræningjana hafa hótað að myrða hana ef þeir fái ekki föður hennar í skiptum fyrir hana.

Læknir leiddur fyrir dómara

Íraski læknirinn Bilal Abdullah var í morgun leiddur fyrir dómara í Lundúnum og ákærður fyrir aðild að hryðjuverkaárás á Glasgow-flugvelli fyrir viku. Hann var einnig ákærður fyrir að hafa átt þátt í að skipuleggja sprengjutilræði í Lundúnum degi áður. Hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald til 27. júlí.

Tvö ár frá hryðjuverkunum í London

Tvö ár eru í dag liðin frá sjálfsmorðssprengjutilræðunum í London og var þessa minnst í dag. Fimmtíu og tveir létust þegar hryðjuverkamenn sprengdu sig í loft upp í þremur neðanjarðarlestum og einum strætisvagni á háannatíma. Fleiri en 700 særðust í árásunum sem eru þær mannskæðustu sem gerðar hafa verið í Bretlandi. Síðan þá hafa öryggissveitir flett ofan af mörgum tilraunum til hryðjuverka í Bretlandi nú síðast tilraunum til að sprengja upp bíla í London og Glasgow.

Verkuðu sel á ísjaka þegar björgunarþyrlur komu

Þrír Grænlendingar sem áhafnir á þyrlum Landhelgisgæslunnar bjöguðu austur af Grænlandi í gær, voru að gera að sel á ísjaka þegar björgunarmenn komu á staðinn. Leki kom að bát þeirra eftir að hann lokaðist inni í hafís fyrir nokkrum dögum. Einstakar myndir Landhelgisgæslunnar eru með þessari frétt.

Einn lést og þrír særðust í Írak

Að minnsta kosti einn breskur hermaður týndi lífi og þrír særðust í árás á búðir andspyrnumanna í borginni Basra í Suður-Írak í morgun. Áhlaupið var það umfangsmesta sem breska herliðið í Írak hefur skipulagt og staðið fyrir á þessu ári. Um eitt þúsund breskir hermenn tóku þátt í aðgerðinni og voru þyrlur og herflugvélar hermönnum á jörðu niðri til stuðnings. Talsmaður breska hersins segir fjölmarga grunaða andspyrnumenn hafa verið handtekna. Til átaka hefur komið í borginni síðustu vikur þar sem nokkrir hópar sjía-múslima berjast um völdin í Basra og nágrenni þar sem mikið af olíu er að finna. Rúmlega hundrað og fimmtíu breskir hermenn hafa fallið í Írak frá innrásinni í landið 2003.

Live Earth hófst í nótt

Tónleikaröðin Live Earth, sem ætlað er að vekja athygli á loftslagsbreytingum, hófst í Tokyo í Japan og Sydney í Ástralíu í nótt. Helstu stórstjörnur í tónlistarheiminum koma fram á tónleikunum sem haldnir eru í níu borgum fram eftir degi og langt fram á kvöld.

Annar grunaðra hryðjuverkamanna leiddur fyrir dómara

Íraski læknirinn Bilal Abdullah verður leiddur fyrir dómara í Lundúnum í dag fyrir þátt sinn í hryðjuverkaárásinni á Glasgow-flugvöll fyrir viku og að hafa skipulagt sprengutilræði í Lundúnum degi áður.

Segir stjórnvöld tefla öryggi borgara í hættu

Guðmundur Gunnarsson formaður Rafiðnaðarsambandsins sakar stjórnmálamenn um að spila með öryggi 350 fjölskyldna á ósvífinn og óábyrgan hátt. Aldrei hafi staðið til að fara að íslenskum öryggiskröfum í íbúðum á Keflavíkurflugvelli. Sett hafi verið bráðabirgðalög sem fresta endurbótum á rafkerfi vallarins fram til 2010..

Gagnrýna ákvörðun sjávarútvegsráðherra um skerðingu aflaheimilda

Forystumenn félaga útgerða og sjómanna, einstakar útgerðir og forystumenn sveitarfélaga hafa margir gagnrýnt harðlega ákvörðun Einars K Guðfinssonar sjávarútvegsráðherra frá því í gær, að skera aflaheimildir í þorski niður um þriðjung á næsta fiskveiðiári.

Ólæti á Akranesi í nótt

Mikil ölvun var á Akranesi í nótt þar sem nú standa yfir írskir dagar. Þó nokkuð var um slagsmál og pústra. Þrír gistu fangageymslur þar af einn vegna fíkniefna sem fundust á honum. Alls komu tólf fíkniefnamál upp í bænum í nótt, þau eru öll til rannsóknar hjá lögreglunni á Akranesi. Tjaldstæði bæjarins voru yfirfull og var mikið ónæði þar í nótt, einkum vegna ungmenna.

Níu björguðust þegar bát steytti á skeri

Níu manns voru í mikilli hættu þegar skemmtibáturinn Stacy steytti á skeri út af Akraneshöfn laust eftir miðnættið í nótt. Fíkniefnalögreglumenn voru fyrstir á staðinn bát sem þeir fengu til verksins en í honum voru vanir björgunarmenn. Björgunarsveitir voru kallaðar út frá Akranesi, Reykjavík og Seltjarnarnesi auk þess sem þyrla Landhelgisgæslunnar TF-GNÁ var kölluð út. Hún fór þó ekki af stað þar sem fólkinu var öllu bjargað um borð í björgunarbátinn Margréti frá Akranesi. Nú er unnið að því að þétta bátinn en stefnt er að því að ná honum á flot á flóðinu um hádegið.

Bíll valt í Mosfellsbæ

Fólksbíll valt á Hafrarvatnsvegi við Mosfellsbæ í snemma í nótt. Þrír karlmenn á tvítugsaldri voru í bílnum og hlutu minniháttar meiðsl. Þeir voru fluttir til skoðunar á slysadeild. Grunur er um ölvun.

Sundabraut ekki frestað en framhaldið er óljóst

„Það er ekki verið að fresta framkvæmdum við Sundabraut og það stendur ekki til,“ segir Kristján L. Möller samgönguráðherra. Fréttablaðið upplýsti í gær að hluti þeirra fjögurra milljarða króna, sem samkvæmt samgönguáætlun eiga að fara í Sundabraut á næsta ári, yrði nýttur til vegaframkvæmda annars staðar á landinu.

Lögin skoðuð verði dómurinn staðfestur

Réttargæslumaður fórnarlambs meintrar nauðgunar er ósammála forsendum og niðurstöðu héraðsdóms. Hún segir sérstakt að byggja á óáreiðanlegum framburði ákærða frekar en einkar trúverðugri stúlkunni.

Bíll valt á Glerárgötu

Árekstur varð á Glerárgötu á Akureyri um tíuleytið í kvöld. Tveir bílar rákust saman með þeim afleiðingum að annar bíllinn valt. Lögreglan á Akureyri gat litlar upplýsingar veitt um málið. Þó er vitað að engin slys urðu á fólki.

Lýst eftir stúlku

Lögreglan í Reykjavík lýsir eftir 17 ára stúlku, Kolbrúnu Söru Runólfsdóttur. Kolbrún hefur haft aðsetur á Árbót í Aðaldal að undanförnu en lögreglan hóf að grennslast eftir henni þegar ljóst var að hún myndi ekki skila sér þangað aftur úr leyfi. Gert er ráð fyrir að Kolbrún sé stödd í Reykjavík. Þeir sem þekkja til Kolbrúnar og vita um ferðir hennar síðastliðinn sólarhring eru beðnir um að láta lögreglu vita í síma 4441000 eða 4441100.

Umhverfisvænn bíll á Bessastaði

Forstjóri Toyota í Evrópu afhenti forseta Íslands í dag nýja Lexus bifreið sem gengur bæði fyrir rafmagni og bensíni. Forsetinn verður fyrsti þjóðhöfðinginn í heiminum sem tekur slíka bifreið í notkun.

Ljóst að störfum fækkar í sjávarútvegi

Erfitt er fyrir sjávarútveginn að svo mikil kvótaskerðing sé tilkynnt aðeins degi eftir að Seðlabankinn ákveður að halda stýrivöxtum óbreyttum og krónan heldur áfram að styrkjast. Þetta segir formaður Sjómannasambands Íslands sem segir ljóst að störfum í sjávarútvegi muni fækka.

Vörugjöld verði lögð niður á þessu kjörtímabili

Viðskiptaráðherra segir ríkisstjórnina stefna að því að leggja niður vörugjöld á þessu kjörtímabili. Hann sé sammála Samtökum atvinnulífsins og segir vörugjöldin úreldan og handahófskenndan skatt sem heyri brátt sögunni til.

Sýknudómur Héraðsdóms skelfilegt afturhvarf til fortíðar

Atli Gíslason lögmaður segir sýknudóm Héraðsdóms Reykjavíkur yfir manni sem ákærður var fyrir nauðgun á Hótel Sögu,skelfilegt afturhvarf til fortíðar. Dómurinn noti viðbrögð stúlkunnar við meintri nauðgun gegn henni. Ekki hefur verið ákveðið hvort málinu verði áfrýjað til Hæstaréttar.

Ökumaður sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögreglu

Borgarneslögreglan veitti ökumanni eftirför um Hvalfjörð á sjötta tímanum í kvöld. Maðurinn var mældur á 116 á 90 kafla í Hafnarskógi. Hann sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögreglu og reyndi að keyra á lögreglubifreið og í veg fyrir hana.

Gjaldþrota kvótakerfi og auknar líkur á brotkasti

Kvótakerfið er gjaldþrota og ákvörðun sjávarútvegsráðherra um skertan þorskkvóta kallar á aukið brottkast. Þetta segja þingmenn stjórnarandstöðunnar í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd Alþingis.

Óbreyttir stýrivextir ættu að draga úr neyslugleði

Sérfræðingar greiningadeilda bankanna telja verðbólguhorfur hafa versnað. Það hafi leitt til þess að vaxtalækkunarferli Seðlabankans hafi tafist. Háir stýrivextir hafi ekki náð að slá á þenslu í þjóðfélaginu en ákvörðun Seðlabankans um óbreytta vexti ætti þó að draga úr neyslugleði heimilanna.

SSR greiðir launin

Talsmenn Íslandspósts segja að Svæðisskrifstofa fatlaðra í Reykjavík greiði laun þess fólks sem taki þátt í tilraunaverkefni á vegum Svæðisskrifstofu fatlaðra, Hins hússins og Íþrótta- og tómstundaráðs.

Bílvelta á Reykjanesbraut í dag

Bílvelta varð við Vogaveg á Reykjanesbraut um eittleytið í dag. Að sögn lögreglunnar urðu engin alvarleg slys á fólki, en einn var fluttur með sjúkrabíl til Reykjavíkur með minniháttar meiðsl. Þá var bíl ekið inn í garð í Keflavík um fjögurleytið í dag. Engan sakaði í því óhappi.

Árekstur í Hrútafirði

Árekstur varð á Síkárbrú í Hrútafirði á fimmta tímanum í dag. Engin slys urðu á fólki. Brúnni var lokuð um stund en nú er búið að opna hana aftur. Mikil umferð er í umdæmi lögreglunnar á Blönduósi þessa stundina.

Morgundagurinn er vinsælasti brúðkaupsdagur ársins

Á morgun er 7. dagur júlímánaðar eða 07.07.07. Búist er við að mörg brúðhjón verði gefin saman á þessum degi en nokkrir hafa þurft að hverfa frá vegna þess að skortur er á veislusölum.

Bráðabirgðalög um húsnæði á varnarliðssvæðinu

Forseti Íslands undirritaði í dag lög þess efnis að heimilt sé að nota raflagnir og rafföng í núverandi ástandi á íbúðar- og skólasvæði fyrrum varnarsvæðis á Keflavíkurflugvelli til 1. október 2010. Raflagnir og rafföng á svæðinu eru í samræmi við bandaríska staðla og því verður að skipta um að þeim tíma liðnum

Skilorðsbundið fangelsi fyrir líkamsárás

Karlmaður var í Héraðsdómi Reykjaness í dag dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa gengið í skrokk á öðrum manni. Þá var honum gert að greiða fórnarlambinu 23 þúsund krónu vegna læknisvottorðs.

Sjá næstu 50 fréttir